Innlent

Nota íslenska mæla til að reyna að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Íslenskir mælar eru nýttir við rannsóknir á kórónuveirunni og þróun bóluefnis. Mælarnir hafa áður verið notaðir þegar unnið hefur verið að þróun bóluefna.

Síðustu daga hefur pöntunum á mælum rignt yfir starfsmenn hátæknifyrirtækisins Stjörnu-Odda. Fyrirtækið framleiðir sérstaka mæla sem hægt er að græða í dýr. Þeir sem eru að reyna að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni nota merði sem tilraunadýr. Merðir þykja með frekar svipuð öndunarfæri og menn. Því eru þeir heppileg tilraunadýr þar sem kórónuveiran leggst oft þungt á öndunarfæri fólks.

„Okkar mælar hafa verið notaðir nokkuð reglulega við rannsóknir á svona hefðbundinni inflúensu og þessir aðilar sem við vinnum mikið með hafa sérhæft sig í öndunarfærasjúkdómum og kórónavírusinn telst til þeirrar flokkunar,“ segir Sigmar Guðbjartsson framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda. 

Í fyrirtækinu vinna á þriðja tug manna.Vísir/Baldur

Sigmar segir mælana gefa einstakt tækifæri til að fylgjast náið með líðan dýranna á meðan á rannsóknum stendur. „Með því að nota mæla sem að gefa tugþúsundir mælinga á hverju einasta dýri þá hefur tekist að fækka verulega dýrum sem eru notuð í dýraprófunum sem er bara frábært,“ segir Sigmar.

Öll starfsemi og framleiðsla mælanna fer fram á Íslandi. Hann segir fyrirtækið vart anna eftirspurn og mögulega þurfi að forgangsraða verkefnum á næstunni til að koma til móts við þá sem eru að vinna að þróun bóluefnis.

„Í rauninni mjög flott að okkar þekking og reynsla leggst á vogarskálarnar og vonandi hjálpar það til með þróun á þessu bóluefni og flýtir fyrir,“ segir Sigmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×