Innlent

Tugir dvelja í fjöldahjálparmiðstöð í Vík vegna óveðurs

Andri Eysteinsson skrifar
Aðstæður við Reynisfjall i kvöld.
Aðstæður við Reynisfjall i kvöld. Vefmyndavél Vegagerðarinnar
Suðurlandsvegi hefur nú verið lokað fyrir umferð milli Hvolsvallar og Víkur í Mýrdal vegna óveðurs sem geisað hefur á svæðinu. Björgunarsveitin Víkverji í Vík hefur haft í miklu að snúast og dvelja nú tugir manna í fjöldahjálparmiðstöð í íþróttahúsinu þar í bæ.

„Þetta er búinn að vera annasamur dagur hjá okkur. Það er frekar blint, mikill laus snjór. Vegurinn hefur verið lokaðir í tvo tíma en hann hefði þurft loka miklu fyrr, það er búið að vera vesen í allan dag,“ segir Orri Örvarsson, formaður Víkverja, um aðstæður á þjóðveginum.

Björgunarsveitin hefur þurft að sinna tugum útkalla í dag vegna ökutækja sem ekki komast lengra eftir veginum eða hafa hafnað utan hans.

„Við erum búnir að draga olíubíla, rútur og flutningabíla eftir að fyrsta útkall kemur klukkan tólf í dag,“ segir Orri en útköllin hafa verið 37 í dag.

Um níutíu manns dvelja nú í fjöldahjálparmiðstöðinni í Vík eftir að hafa þurft aðstoð. Auk fjórtán Víkverja komu björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Dagrenningi á Hvolsvelli til aðstoðar.

Orri segir að aðgerðir dagsins hafi gengið vel fyrir sig og engin slys hafi verið á fólki. Hann segir að auðvelt verði að opna vegin þegar lægir og umferðin geti hafist að nýju. Eitthvað af bílum séu þó eftir við veginn þar sem ekki reyndist unnt að draga þá til byggða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×