Innlent

Tvö ný sýni vegna Wuhan-veirunnar reyndust neikvæð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Enn hefur enginn greinst með Wuhan-veiruna hér á landi.
Enn hefur enginn greinst með Wuhan-veiruna hér á landi. vísir/hanna

Tvö ný sýni vegna Wuhan-veirunnar svokölluðu voru prófuð um helgina á sýkingavarnadeild Landspítalans. Sýnin reyndust neikvæð og því er staðan óbreytt hér á landi þar sem enginn hefur smitast af veirunni. Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu almannavarna vegna veirunnar. Alls hafa tólf verið prófaðir hér á landi sem voru á ferðalagi í Kína.

Veiran, sem er ný tegund kórónaveiru, á uppruna sinn í kínversku borginni Wuhan. Þar fór fólk að veikjast vegna hennar í desember síðastliðnum. Síðan þá hafa yfir 40 þúsund manns greinst með veiruna, langflestir í Kína, og yfir 900 látist, einnig langflestir í Kína.

Veiran hefur meðal annars greinst í Frakklandi, Svíþjóð, Bretlandi og Þýskalandi auk þess sem hún hefur komið upp í mörgum nágrannaríkjum Kína.

Í stöðuskýrslu almannavarna kemur fram að tólf einstaklingar hafi nú verið rannsakaðir hér á landi með tilliti til veirunnar.

Samkvæmt áhættumati fyrir veiruna sem framkvæmt er af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins er hættan á slæmum faraldri í löndum Evrópu talin lítil. Þá er ekki mælt með því að beita aðgangstakmörkunum og hefta för einstaklinga milli landa að því er fram kemur í stöðuskýrslunni:

„Eins og kom fram í stöðuskýrslu almannavarna sl. föstudag, var tekin ákvörðun um að yfirvöld á Keflavíkurflugvelli í samvinnu almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kanni möguleg úrræði til að lágmarka áhættuna á því að veiran berist hingað til lands. Sú vinna er hafin en í því sambandi þarf að skoða tæknilegar, faglegar og lagalegar hliðar. Reynsla annarra þjóða af slíku eftirliti og aðgerðum verður einnig til skoðunar.“


Tengdar fréttir

Fengu loks að yfir­gefa skipið eftir fjóra daga

Um 3.600 farþegum og áhafnarmeðlimum skemmtiferðaskipsins World Dream var í dag loks leyft að fara frá borði eftir að hafa verið í fjögurra daga löngu sóttkví fyrir utan strendur Hong Kong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×