Innlent

Landspítalinn boðar fólk til vinnu klukkan fimm í fyrramálið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Von er á aftakaveðri víða um land í nótt og á morgun.
Von er á aftakaveðri víða um land í nótt og á morgun. Vísir/Vilhelm

Starfsfólk á deildum með sólarhringsstarfsemi á Landspítalanum er beðið um að mæta til vinnu klukkan fimm í fyrramálið ef það hefur tök á. Þetta eru skilaboð frá viðbragðsstjórn Landspítalans vegna óveðursins sem reiknað er með að skelli á landinu seint í kvöld og nótt.

Gert er ráð fyrir aftakaveðri á höfuðborgarsvæðinu á morgun og búist er við truflunum á reglulegri starfsemi Landspítala.

„Á deildum með sólarhringsstarfsemi er mælst til að starfsfólk sem tök hefur á mæti til vinnu kl. 05 og leysi þá af næturvaktastarfsfólk eftir atvikum. Þetta verður framkvæmt í samráði við deildarstjóra og forstöðumenn,“ segir í erindi viðbragðsstjórnar.

Gert er ráð fyrir að þeir sem ekki þurfa nauðsynlega að koma til starfa í fyrramálið sinni störfum sínum heima og/eða bíði eftir að veður lægi. Þá er starfsfólk hvatt til að fylgjast með frekari tilkynningum á miðlum Landspítala og á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Landspítalinn er stærsti vinnustaður landsins með hátt í 6000 starfsmenn
Fleiri fréttir

Sjá meira


×