Innlent

Hvorki hlýindi né ró­leg­heit að sjá í veður­kortum næstu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi milli 17 og 22 í dag.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi milli 17 og 22 í dag. Veðurstofan

Kröpp og dýpkandi lægð nálgast nú landið sunnan úr hafi sem veldur því að hvessir talsvert úr austri og síðar norðaustri. Einnig fer að snjóa síðdegis, fyrst syðst á landinu. Frost verður á bilinu 0 til 8 stig þar sem kaldast verður í innsveitum fyrir norðan.

Veðurstofan spáir að í kjölfarið geri talsvert hríðarveður undir Eyjafjöllum og í Mýrdal og síðar einnig á Suðausturlandi og Austfjörðum. Spáir 18 til 25 metrum á sekúndu suðaustan til og einnig allra syðst seinni partinn með snjókomu eða slyddu. Seint í kvöld og nótt hvessir einnig með hríð á Norðurlandi.

„Því hafa verið sendar út gular og appelsínugular viðvaranir og eru ökumenn hvattir til að búa sig undir alvöru vetrarveður í dag. Hlýnar þó heldur í kvöld og fer að rigna við austurströndina.

Í fyrramálið gengur á með norðaustanhvassviðri eða -stormi og ofankomu á norðanverðu landinu, en birtir til syðra. Dregur smám saman úr vindi seinni partinn og kólnar heldur. Engin hlýindi né rólegheit er að sjá í veðurkortum næstu daga, enda um að gera að þreyja góuna,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákortið eins og það lítur út klukkan 20 í kvöld. Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Norðan og norðaustan 15-23 m/s framan af degi, en dregur síðan úr vindi, 13-20 síðdegis, hvassast NV til. Snjókoma eða él á N-verðu landinu, en hægara og bjartviðri syðra. Hiti nálægt frostmarki.

Á föstudag: Norðaustan 10-15 m/s og éljagangur, en austlægari og snjókoma eða slydda syðst. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag: Norðlæg átt og él víða á landinu, en bjartviðri SV-lands. Kólnandi veður.

Á sunnudag: Vestlægar áttir og víða él, en léttskýjað NA til. Frost 2 til 10 stig.

Á mánudag og þriðjudag: Líklega breytilegar áttir með éljum á víð og dreif og talsverðu frosti á öllu landinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.