Innlent

Íslenskir þingmenn hentu í víkingaklapp á Nýja-Sjálandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jörundur, Steingrímur og Hanna Katrín buðu upp á víkingaklapp ásamt Helga Hrafni sem sést glytta í fyrir aftan Steingrím. Ekki fylgir hvort heimamenn hafi svarað með haka-dansi.
Jörundur, Steingrímur og Hanna Katrín buðu upp á víkingaklapp ásamt Helga Hrafni sem sést glytta í fyrir aftan Steingrím. Ekki fylgir hvort heimamenn hafi svarað með haka-dansi.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Helgi Hrafn Gunnarsson, 6. varaforseti Alþingis, Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar og Jörundur Kristjánsson, forstöðumaður forsetaskrifstofu buðu upp á víkingaklapp að hætti stuðningsmanna knattspyrnulandsliða Íslands í opinberri heimsókn forseta Alþingis til Nýja-Sjálands á dögunum.

Á heimasíðu Alþingis kemur fram að meðal þess sem hæst bar var þingmannasamstarf, samvinna á sviði jarðvarma og möguleikar á sviði ferðaþjónustu og viðskipta. Ááætlað er að um 100 nýsjálenskir gestir sæki stóra jarðhitaráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík í lok apríl.

Þá fundaði íslenski hópurinn með forseta öldungadeildar Ástralíuþings, Scott Ryan, og forseta fylkingsþingsins í Viktoríu, Colin Brooks.

Heimsókn Íslendinganna er gerð afar góð skil á vef þingsins þar ytra eins og sjá má að neðan. Þingmennirnir láta afar vel af veru sinni á Nýja-Sjálandi og minntist Helgi Hrafn á að túlkun Íslendinga og íbúa Nýja-Sjálands á slæmu veðri væri gjörólík.

Þá bauð Steingrímur upp á rímnasöng eins og sjá má í upphafi myndbandsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.