Innlent

Húsvíkingar vígðu nýja slökkvistöð

Andri Eysteinsson skrifar
Húsvíkingar eru stoltir af nýrri slökkviliðsstöð.
Húsvíkingar eru stoltir af nýrri slökkviliðsstöð. Slökkvilið Norðurþings

Slökkviliðsstöð slökkviliðs Norðurþings á Húsavík var í gærð vígð við hátíðlega athöfn. Á meðal viðstaddra voru Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra ásamt Hermanni Jónassyni, forstjóra Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar (HMS).

Í nýju stöðinni má finna allt sem þarf til starfsins og er hún hönnuð samkvæmt nýjustu kröfum til slíkra stöðva.

Við þetta tilefni undirritaði forstöðumaður brunamála hjá HMS, Davíð S. Snorrason, nýja brunavarnaáætlun fyrir starfssvæði slökkviliðs Norðurþings. Markmið áætlunarinnar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað skipulagt og þjálfað að það ráði við brunahættuna sem er í sveitarfélaginu.

„Brunamál og brunaöryggi skipta okkur sem samfélag miklu máli. Markmið mitt er að taka þennan málaflokk föstum tökum og efla til framtíðar. Bætt aðstaða slökkviliða, bæði til viðbragða, þjálfunar og fræðslu er fyrsta skrefið í þá átt að stórbæta brunavarnir landsmanna. Fátt getur valdið jafn miklu tjóni og alvarlegir brunar og við megum ekki láta staðar numið fyrr en það heyrir til undantekninga að brunaskaði verði í bæjum og sveitum landsins,“ sagði Ásmundur Einar

Ráðherrann bætti við „samfélagið allt þarf að búa við brunavarnir og forvarnir eins og best gerist. Þetta er á meðal þess sem ég vænti af nýrri Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, að hún stórefli brunavarnir mannvirkja, fræðslu og upplýsingagjöf til bæði heimila og fyrirtækja. Því er ánægjulegt að taka þátt í því ásamt forystufólki þessarar nýju stofnunar, HMS, að opna þessi glæsilegu nýju heimkynni slökkviliðsins í Norðurþingi á Húsavík.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×