Innlent

Stormur, éljagangur og vatnavextir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun blása á vestanverðu landinu og miðhálendinu í dag.
Það mun blása á vestanverðu landinu og miðhálendinu í dag.

Enn eru ísstíflur í Hvítá á Suðurlandi vestan Hestfjalls og sýnir vatnshæðarmælir við Brúnastaði svipað ástand. Gular viðvaranir vegna hvassviðris og éljagangs taka gildi á vestanverðu landinu og á miðhálendinu með morgninum og gilda fram á nótt.

Í athugasemdum sérfræðings hjá Veðurstofunni segir að áfram megi búast við einhverri úrkomu á vatnasviði Hvítár og mun úrkoman ásamt leysingu skila sér með tíð og tíma neðar í ána. Sérfræðingurinn segir að vegna þessa séu líkur á að vatnshæð á svæðinu hækki meira og að flæði enn frekar í nærumhverfi árfarvegarins. Enn fremur er möguleiki á svokölluðum þrepahlaupum þegar ísstíflurnar losna og rennsli árinnar getur aukist töluvert í skamman tíma í kjölfarið.

Sjá einnig: Vísbendingar um að hreyfst hafi við klakastíflunni í Hvítá

Úrkoman í fyrrinótt og leysing hefur valdið nokkrum vatnavöxtum í ám og lækjum á sunnan- og vestanverðu landinu sem gætu haft áhrif á næsta umhverfi vatnsfarvegina. Sérstaklega má búast við auknu afrennsli á norðanverðu Snæfellsnesi, svæðinu í kringum Mýrdalsjökul og á suðausturlandi. Einnig eru líkur á vatnavöxtum í Skagafirði og Eyjafjarðará vegna snjóbráðar í kjölfar hækkandi hita og hvassra vinda.

Þá taka gular veðurviðvarandi gildi með morgninum víða um land; eða á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á miðhálendinu. Búist er við hvassviðri eða stormi með talsverðum éljagangi og skafrenningi.

Það verður því lélegt skyggni og akstursskilyrði versna. Samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar, einkum fjallvegum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Gert er ráð fyrir að ástandið vari fram á nótt.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.