Innlent

Gul viðvörun og enn einn stormurinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viðvaranirnar byrja að taka gildi klukkan 19 annað kvöld.
Viðvaranirnar byrja að taka gildi klukkan 19 annað kvöld. Skjáskot/veðurstofan

Búist er við suðvestan hvassviðri eða stormi og éljagangi vestan- og norðvestantil á landinu seint á morgun. Gular viðvaranir eru í gildi í umræddum landshlutum fram á fimmtudagsmorgun.

Viðvaranirnar taka gildi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og Miðhálendinu annað kvöld. Gert er ráð fyrir vindi allt að 25 metrum á sekúndu, talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni auk þess sem akstursskilyrði fara fljótt versnandi þegar líða tekur á kvöldið.

Þá má búast við samgöngutruflunum og lokunum á vegum, einkum fjallvegum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Á Miðhálendinu er jafnframt sérstaklega tekið fram að aðstæður fyrir ferðamenn geti verið varhugaverðar eða hættulegar.

Hér má nálgast upplýsingar um viðvaranir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðvestan og vestan 15-23 m/s og éljagangur, en léttskýjað austantil á landinu. Frost 0 til 4 stig.



Á föstudag:

Suðvestlæg átt, 5-13 m/s og snjókoma eða él, en þurrt austanlands. Vægt frost. Vaxandi suðaustanátt sunnantil um kvöldið með snjókomu og hægt hlýnandi veðri.



Á laugardag:

Hvöss austlæg átt, slydda með suðurströndinni en annars snjókoma. Hiti 0 til 3 stig syðst en annars vægt frost.



Á sunnudag:

Líkur á hvassri suðvestlægri átt, snjókomu norðvestantil framan af degi, annars hægari og él, en bjart með köflum austantil. Kólnandi.



Á mánudag:

Útlit fyrir fremur hæga austlæga átt og bjartviðri í flestum landshlutum. Kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×