Innlent

Nær allir komnir aftur með rafmagn nema Flateyringar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mjög hefur mætt á Flateyringum síðustu daga en stór snjóflóð féllu á bæinn í byrjun síðustu viku.
Mjög hefur mætt á Flateyringum síðustu daga en stór snjóflóð féllu á bæinn í byrjun síðustu viku. Vísir/Egill

Rafmagni hefur verið komið á aftur víðast hvar á Vestfjörðum, þar sem varð rafmagnslaust nú skömmu fyrir hádegi. Enn er þó rafmagnslaust í Önundarfirði og Flateyringar því enn án rafmagns og hita.

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir í samtali við Vísi að verið sé að vinna að því að byggja upp kerfið á ný. Það sé enn óstöðugt en flestir séu þó aftur komnir með rafmagn, sumir með varaafli.

Ekki hafi tekist að koma á rafmagni í tengivirki í Breiðadal, líklegast vegna mikillar seltu en verið er að undirbúa hreinsun á því í samvinnu við slökkvilið á Ísafirði. Ómögulegt sé að segja til um það hvenær lagfæring klárist. Vont veður sé á svæðinu og óljóst hvernig viðgerð muni ganga.

Í færslu frá Orkubúi Vestfjarða sem birt var klukkan 13:30 segir að rafmagn eigi að vera komið á hjá öllum notendum á Ísafirði. Þó eigi eftir að staðfesta að það sé komið rafmagn í Arnardal.

Ívar Kristjánsson björgunarsveitarmaður á Flateyri segir í samtali við Vísi nú á öðrum tímanum að rafmagnið hafi farið af bænum rétt fyrir hádegi. Öll hús í bænum sé þannig rafmagns- og heitavatnslaus.

Appelsínugul hríðarviðvörun er í gildi á Vestfjörðum í dag. Ívar segir að veður hafi verið mjög slæmt í morgun en sé eitthvað tekið að skána þó enn gangi á með dimmum éljum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.