Innlent

Tveir skjálftar yfir þremur nærri Grindavík

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjallið Þorbjörn sést hér fyrir miðri mynd en það er skammt frá Grindavík.
Fjallið Þorbjörn sést hér fyrir miðri mynd en það er skammt frá Grindavík. vísir/arnar

Tveir skjálftar yfir þremur að stærð mældust nærri Grindavík í morgun. Samkvæmt töflu Veðurstofu Íslands yfir jarðskjálfta mældist annar klukkan 04:31 og var hann 3,5 að stærð.

Þá mældist hinn tæpum hálftíma síðar eða klukkan 04:59 og var hann 3,2 að stærð. Sá fyrri mældist 1,9 kílómetra norður af Grindavík og sá síðari 1,5 kílómetra norður af Grindavík.

Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna jarðhræringa vestan við fjallið Þorbjörn sem er í nágrenni Grindavíkur. Óvenju hratt landris hefur verið á svæðinu undir Þorbirni sem vísindamenn telja að sé líklegast tilkomið vegna kvikusöfnunar sem geti verið undanfari eldgoss.

Grannt er fylgst með svæðinu af vísindamönnum og hefur meðal annars verið komið upp fleiri mælitækjum á Þorbirni til að hægt sé að fylgjast betur með því hvað er að gerast.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að á milli tuttugu til þrjátíu skjálftar hafi mælst á svæðinu frá miðnætti en þeir hafi allir verið minni en þessir tveir sem mældust á milli hálffimm og fimm; flestir undir tveimur og margir um einn.

Hann segir fjölda tilkynninga hafi borist um að íbúar í Grindavík sem og Reykjanesbæ hafi fundið fyrir stærri skjálftunum tveimur.

„Það er eins og skjálftarnir lendi á svæðinu á milli Grindavíkur og Þorbjörns þannig að þeir eru svolítið nær bænum núna þannig að auðvitað finnur fólk fyrir þessum skjálftum og er eflaust órólegt,“ segir Bjarki. 

Aðspurður hvort þessir skjálftar séu merki um að eitthvað sé að gerast eða hvort þetta sé eðlilegt eins og ástandið er nú segir Bjarki þetta hegðunina á svæðinu þegar það er landris.

„Svo er einhver orka búin að safnast upp eflaust sem losnar í skjálftunum sem komu núna. En það eru engin merki um gosóróa eða neitt slíkt,“ segir Bjarki.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×