Innlent

Tillaga Eflingar um vinnustöðvun tekur meðal annars til tæplega þúsund starfsmanna leikskóla borgarinnar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. vísir/vilhelm

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur samþykkt tillögu um vinnustöðvun sem áformað er að hefjist í febrúar. Vinnustöðvunin tekur til tæplega tvö þúsund manns, þar af þúsund starfsmanna leikskóla borgarinnar.

„Þetta er tillaga sem samninganefndin samþykkir frá sér og hún fer í atkvæðagreiðslu félagsmanna sem starfa undir samningnum við Reykjavíkurborg. Framkvæmdin veltur líka á því hvort að mögulega verði búið að semja. Fyrsti verkfallsdagur samkvæmt þessu plani myndi ekki verða fyrr en fjórða febrúar, eftir það eru þetta stigmagnandi aðgerðir, meiri þéttleiki. Frá mánudeginum sautjánda febrúar verður þá um að ræða ótímabundið verkfall,“ sagði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.

Verkfallið tekur til allra sem vinna undir samningi eflingar hjá borginni. Um er að ræða tæplega tvö þúsund manns, þar af tæplega þúsund starfsmenn leikskólanna og dágóður fjöldi á velferðarsviðinu auk starfsmanna hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar.

Viðar segir erfitt að segja til um hvort langt er í að samningar náist.

„Eins og hefur komið fram þá telur formaður eflingar og samninganefndin að borgin einfaldlega sé langt því frá að sýna nægilegan lit í þessum viðræðum og viðurkenna vanda láglaunafólksins hjá borginni og uppfylla sín eigin vilyrði og fyrirheit um borgina sem vinnustað jöfnuðar. Ég er þess viss að það muni nást samningur. Eftir allan þennan tíma er það mat nefndarinnar að það sé nauðsynlegt að setja af stað aðgerðir til þess að búa til þrýsting sem því miður er oft það eina sem að verkafólk hefur þegar kemur að því að ná áheyrn þeirra sem valdið hafa,“ sagði viðar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×