Innlent

Ákærður fyrir stórfellda líkamsárás gegn sautján ára kærustu sinni og ofbeldi gegn annarri átján ára stúlku

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Maðurinn huldi höfuð sitt þegar hann var leiddur fyrir dómara þegar krafa um gæsluvarðhald var tekin fyrir á dögunum.
Maðurinn huldi höfuð sitt þegar hann var leiddur fyrir dómara þegar krafa um gæsluvarðhald var tekin fyrir á dögunum. vísir/frikki

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært tvítugan karlmann fyrir stórfellda líkamsárás gegn sautján ára kærustu sinni. Hann er einnig ákærður fyrir ofbeldisbrot og hótanir gegn annarri átján ára stúlku.

Maðurinn er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás og brot í nánu sambandi. Er hann grunaður um að hafa ráðist á 17 ára kærustu sína aðfararnótt 19. október í miðbæ Reykjavíkur.

Hann er ákærður fyrir að hafa veitt henni ítrekuð spörk sem sérstaklega beindust að höfði, taka hana hálstaki og þrengja að öndunarvegi sem var til þess fallið að setja hana í lífshættu, með þeim afleiðingum að hún hlaut beinbrot í andliti, mikla höfuðáverka og áverka víðsvegar um líkamann.

Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á stúlkuna áður.

Maðurinn er líka ákærður fyrir ofbeldi gegn annari 18 ára stúlku. Hann er ákærður fyrir að hafa veist að henni með ofbeldi í bifreið sem hann ók áleiðis í Heiðmörk.

Þá er hann ákærður fyrir að hafa ítrekað sent henni hótanir í gegn um samskiptaforritið Snapchat, sem voru til þess fallnar að valda henni ótta um líf sitt. Meðal annars skilaboðin: ég lem þig í stöppu og ég nauðga þér þegar ég kem.

Eiga öll brotin mannsins að hafa átt sér stað árið 2019.

Venjan er að Héraðssaksóknari fari með ákæruvald í svo alvarlegum málum en ákveðið var að lögreglan færi með ákæruvald til að flýta meðferð. Maðurinn var á föstudaginn úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 7. febrúar. Þetta staðfestir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 


Tengdar fréttir

Gekk skólaus yfir Geirsgötu með blóðuga fyrrverandi kærustu í fanginu

Tvítugur karlmaður sem grunaður er um tilraun til manndráps eða mjög grófa líkamsárás á sautján ára kærustu sinni í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 19. október tjáði lögreglu í kjölfar handtöku að fram hefðu farið dramatísk sambandsslit um nóttina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.