Innlent

Seðla­bankinn braut jafn­réttis­lög við ráðningu upp­lýsinga­full­trúa

Eiður Þór Árnason skrifar
Stefán Rafn var ráðinn upplýsingafulltrúi í júní síðastliðnum. Gunnhildur Arna kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála.
Stefán Rafn var ráðinn upplýsingafulltrúi í júní síðastliðnum. Gunnhildur Arna kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála. Vísir

Seðlabankinn braut jafnréttislög þegar hann réð Stefán Rafn Sigurbjörnsson sem upplýsingafulltrúa bankans á síðasta ári. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og blaðamaður á Læknablaðinu, kærði ráðninguna en RÚV greindi fyrst frá. Þetta er í þriðja sinn sem Seðlabankinn hefur gerst sekur um að brjóta jafnréttislög frá árinu 2012.

Stefán Rafn var ráðinn í stöðuna í júní síðastliðnum en hann starfaði þá sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. 51 sótti um starfið en fram kemur í úrskurði nefndarinnar að nægar líkur hafa verið leiddar að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns.

„Telur nefndin að fyrir liggi að kærandi hafi staðið umræddum karli framar varðandi fyrstu tvær hæfniskröfurnar í ráðningarferlinu, þ.e. annars vegar menntun og hins vegar reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun.“

Ekki tekist að sýna fram á að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar

Þá segir að Seðlabankanum hafi ekki tekist að sýna fram á að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar varðandi næstu tvær hæfniskröfur „þ.e. varðandi tungumálakunnáttu og þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum, en hvoru tveggja eru þættir sem unnt er að meta með fremur hlutlægum hætti.“

Telur nefndin að þau sjónarmið sem Seðlabankinn hafi dregið fram í málinu sýni ekki fram á að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar við ráðninguna.

„Að öllu framangreindu virtu hefur kærði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa.“

Segir kæruna tilefnislausa

Fram kemur í úrskurðinum að Seðlabankinn telji kæruna tilefnislausa og að honum hafi verið frjálst að velja þann einstakling sem metinn hafi verið hæfastur á grundvelli viðmiða í auglýsingu. Bankinn segir jafnframt að heildstætt mat hafi verið gert á umsækjendum og mjög vandað ferli farið fram við ráðninguna.

Úrskurðað var í málinu þann 17. desember síðastliðinn. Kærunefndin hafnaði kröfu Gunnhildar um að Seðlabankanum bæri að greiða málskostnað hennar í ljósi þess að ekki liggi fyrir hvort að hún hafi orðið fyrir kostnaði vegna málsins.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.