Innlent

Sendu síðustu stöðuskýrsluna vegna snjóflóðanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Varðskipið Þór við hreinsun í höfninni á Flateyri í dag.
Varðskipið Þór við hreinsun í höfninni á Flateyri í dag. Landhelgisgæslan

Aðgerðarstjórn á Ísafirði og Samhæfingastöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík hafa lokið störfum vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði. Síðasta stöðuskýrsla samhæfingarstöðvarinnar var send út í dag.

Í dag luku björgunarsveitir við mokstur á snjó úr húsinu í Ólafstúni 14 sem lenti undir öðru snjóflóðinu sem féll á Flateyri. Birgt var fyrir glugga og húsinu lokað. Þá hefur björgunarsveitafólk verið að stöfum á Flateyri í dag og aðstoðað íbúa við snjómokstur. Lögð hefur verið áhersla á að moka snjó frá húsum og hreinsa þök þar sem von er hláku næstu dag, að því er fram kemur í skýrslu samhæfingarstöðvarinnar.

Hluti björgunarsveitafólks sem sent var frá höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni fór með flugi til baka seinni partinn í dag. Sjö manns verða áfram á Flateyri til stuðnings við björgunarsveitir á svæðinu vegna veðurspár á sunnudag, sem er afar slæm.

Varðskipið Þór var til taks við Flateyri í dag. Áhöfnin átti fund með sérfræðingi Umhverfisstofnunar og hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar til að fara yfir mengunarvarnir og hreinsun hafnarinnar. Áhöfnin á varðskipinu hélt á tveimur léttbátum og hreinsuðu brak og annað rusl úr höfninni. Þá var krani varðskipsins notaður til að hífa brakið úr sjó.

Ríkislögreglustjóri hefur jafnframt ákveðið að opna tímabundna þjónustumiðstöð á Vestfjörðum vegna snjóflóðanna. Þjónustumiðstöðvar eru opnaðar þegar ljóst er að snjóflóð eða aðrar hamfarir hafa haft áhrif á íbúa, byggð, umhverfi og eignir í nágrenni hamfarasvæðis.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.