Innlent

Segist fegin að geta notið félagsskapar á hjúkrunarheimili á tímum heimsfaraldurs

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Kona sem býr á Hrafnistu segist vera ánægð með að gengið sé langt í að tryggja öryggi heimilismanna á tímum heimsfaraldurs. Hún er fegin því að geta notið félagsskapar á hjúkrunarheimili núna.

Heimsóknartími flestra hjúkrunarheimila hefur verið skertur í faraldri kórónuveirunnar.

Íbúi á Hrafnistu segist afar ánægð með að gengið sé svo langt í að tryggja öryggi heimilismanna.

„Mér finnst þetta alveg frábært ég get ekki fundið nokkurn skapaðan hlut að því. Það er bara verið að vernda okkur og það er okkur til góðs,“ Sagði hin 94 ára Bertha María Grímsdóttir Waagfjørd.

Hún segist heppin að búa á Hrafnistu - því þar er hún alla daga i kringum aðra heimilismenn. Byggi hún enn í heimahúsi hefði hún ekki eins mikinn félagsskap á þessum undarlegu tímum.

„Í þessu ástandi hefði ég verið mjög mikið ein en ég er aldrei ein hérna,“ sagði Bertha.

Starfsmaður segir að íbúar hafi veitt hvor öðrum félagsskap í ljósi þess að aðstandendur hafi ekki heimild til að koma á öllum tímum dagsins. Þeir hafi kennt hvor öðrum að spila, hekla og notið meiri tíma saman en ella.

Ástvinir Berthu koma reglulega til hennar og spjalla við hana í gegnum gluggann.

„Ég hef getað talað við þau í gegnum gler með síma og séð þau,“ sagði Bertha.

Bertha segir fólk hafa lært margt nýtt í faraldrinum. Til dæmis hafi tvítugur starfsmaður í aðhlynningu lært að setja rúllur í hárið á íbúum þegar hárgreiðslustofunni var lokað.

„Meira að segja einn ungur piltur og hann gerði þetta svo ljómandi vel. Ég spurði hann að því hvort hann myndi vilja setja rúllur í mig, það var ekkert mál,“ sagði Bertha.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.