Innlent

Engar breytingar varðandi landa­mærin að svo stöddu

Sylvía Hall og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir aðgerðir á landamærunum ekki þurfa að haldast í hendur við aðgerðir innanlands.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir aðgerðir á landamærunum ekki þurfa að haldast í hendur við aðgerðir innanlands. Vísir/Vilhelm

Reglur um nálægðartakmörk í framhalds- og háskólum verða rýmkaðar en áfram mega að hámarki eitt hundrað koma saman samkvæmt nýjum reglum sem taka gildi á föstudag. Bera þarf grímu í strætó ef ferð varir í þrjátíu mínútur eða lengur. Engar breytingar verða gerðar að svo stöddu hvað varðar landamæri.

Þær reglur sem nú gilda um samkomutakmarkanir falla úr gildi á miðnætti annað kvöld. Heilbrigðisráðuneytið kynnti í dag nýjar reglur sem taka gildi á föstudaginn sem byggja á tillögum sóttvarnalæknis til ráðherra.

Áfram mega að hámarki hundrað koma saman og meginreglan um tveggja metra nálægðarmörk gildir áfram. Í framhalds- og háskólum verður heimilt að hafa einn metra á milli einstaklinga án þess að grímur séu notaðar. Þrátt fyrir tveggja metra regluna verða snertingar heimilar á milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum. 

Að öðru leyti skal tveggja metra reglan gilda í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga.

Þá hafa reglur um notkun andlitsgrímu verið skýrðar. Þær skal nota við aðstæður þar sem eðli starfssemi krefst meiri nálægðar milli einstaklinga en tveggja metra, og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í þrjátíu mínútur eða lengur.

Áfram er áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir. Nýjar reglur gilda til 27. ágúst og varða aðeins aðgerðir innanlands, ekki ráðstafanir á landamærum.

„Þetta fyrirkomulag, sem að hefur gefist ágætlega, það gildir til 15. september og hvort að stjórnvöld vilja grípa til einhverra breytinga eða breyta einhverju fyrir þann tíma, það get ég ekki sagt til um,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um fyrirkomulagið á landamærum.

Hann kveðst ekki líta svo á að aðgerðir á landamærum annars vegar og innanlands hins vegar, þurfi að haldast í hendur. „Þetta spilar á einhvern hátt saman en líka að öðru leyti þá er þetta óháð hvort öðru.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.