Innlent

Samningaviðræður við ríkið um ríkisábyrgð standa yfir

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Icelandair Group er á lokasprettinum í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Samningaviðræður við ríkið standa nú yfir um lánalínu með ríkisábyrgð.

Forsvarsmen Icelandair Group greindu frá því í gærkvöld að þeir hefðu lokið viðræðum við kröfuhafa félagsins og náð endanlegu samkomulagi við Boeing.

Félagið hættir við kaup á fjórum flugvélum og afhendingu á sex vélum seinkað.

„Í fyrsta lagi erum við að fækka pöntunum og minka þannig skuldbindingu félagsins og laga þá  flotann að nýju umhverfi sem við erum í,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Samkomulagið við Boeing felur einnig í sér bætur vegna tjóns sem Icelandair hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX flugvélanna. Bogi segist ekki geta tjáð sig um upphæð bótanna.

Nú veltur allt á því að afla nægilegs hlutafjár og klára samninga við ríkið. Samningaviðræður standa nú yfir um lánalínu með ríkisábyrgð.

„Við erum búin að vera í þéttu samtali við stjórnvöld síðan þetta ástand hófst og það samtal gengur ágætlega,“ sagði Bogi.

Hverjar eru kröfur ríkisins?

„Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld gefið vilyrði fyrir því að ábyrgjast lánalínu að því gefnu að félaginu takist að safna nýju hlutafé og verkefið okkar snýst um það,“ sagði Bogi.

Hvað þurfið þið að safna miklu hlutafé svo að ríkið veiti lánalínu með ríkisábyrgð?

„Það er engin tala sem liggur fyrir hvað það varðar. Við erum að vinna með ákveðið módel og það mun koma í ljós á næstu dögum hvað við erum að stefna á í þessu samhengi.“

Á næstu dögum stendur til að birta kynningu með upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði. 

„Við erum að stefna á að klára þetta í ágústmánuði og það er enn planið okkar,“ sagði Bogi.


Tengdar fréttir

Hafa lokið samningum við Boeing og kröfuhafa

Forsvarsmenn Icelandair Group hafa lokið viðræðum við kröfuhafa félagsins og náð endanlegu samkomulagi við Boeing vegna kyrrsetningar MAX flugvélanna. Samningaviðræður við ríkið um ríkisábyrgð standa yfir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.