Innlent

Minnisblað Þórólfs ekki rætt í ríkisstjórn: „Nú fer ég bara að lesa“

Birgir Olgeirsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra tillögum sínum um breytingar á sóttvarnaráðstöfunum hér á landi í morgun. Í minnisblaðinu eru tillögur sem varða landamæraskimunina, eins metra regluna og um íþróttir með snertingum.

Ríkisstjórnin fékk þó ekki ítarlega kynningu á þessu minnisblaði því það barst rétt áður en fundurinn hófst. 

„Ég var bara að fá minnisblaðið frá Þórólfi korter fyrir tíu og nú er ég bara að fara að lesa,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um minnisblaðið frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.

Menntamálaráðherra sagði eftir fundinn að eins metra reglan muni gagnast skólum vel. 

„Þessi regla er jákvæð fyrir skipulagningu á skólahaldi. Það mun skapast meira rými til að skipuleggja það og þetta er anda þess sem er gert í Noregi. Svo vil ég líka taka fram að leik- og grunnskólastigið býr ekki við tveggja metra regluna. Þannig að við getum öll hlakkað til þess að skólahald er hér að hefjast,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra að loknum fundi ríkisstjórnar.

Þannig að nýnemar sem eru að fara í framhaldsskóla, þeir geta mætt í skólann?

„Já, ég tel að það verði hægt.“

Kórónuveiran greindist í alls sex einstaklingum í gær, þar af voru þrír með virkt smit covid-19, einn með mótefni og tveir bíða niðurstöðu mótefnamælingar. Alls voru tekin 3105 sýni á landamærum í gær og er það í fyrsta sinn síðan 15. júní sem fjöldi sýna fer yfir þrjú þúsund við landamæri.

Enginn greindist innanlands en tekin voru 289 sýni á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og 56 hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Daglegur upplýsingafundur hefst klukkan tvö, en á fundinum í dag verða Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Una Hildardóttir, formaður Landssambands ungmennafélaga, verður gestur fundarins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.