Innlent

Vonar að viðurlög hafi fælingarmátt til að forðast lokanir: „Einhverjar tekjur eru betri en engar“

Andri Eysteinsson skrifar

Lögreglan er boðin velkomin á Röntgen við Hverfisgötu til þess að taka út sóttvarnaraðgerðir sem staðarhaldarar hafa gripið til að sögn Ásgeirs Guðmundssonar, eins af meðeigendum staðarins.

Ásgeir ræddi málin í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Við höfum fækkað borðum og stólum töluvert og við höfum líka takmarkað fjöldann hér inni við 50 til 60 manns, umfram við þær reglur sem okkur hafa verið settar,“ segir Ásgeir um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til á staðnum sem ekki hefur verið tekinn út af lögreglu í heimsóknum hennar um helgina.

Ásgeir segir að þrátt fyrir ráðstafanir barsins sé það enn ekki í eðli mannsins að halda tveggja metra reglu hvor frá öðrum. „Það hefur vissulega verið einhver brotalöm á því. Það er nánd, kærleiki og samkennd í okkar eðli svo þetta er bara regla sem þarf að lærast,“ sagði Ásgeir.

Þó að mikið æfing hafi hlotist í framfylgd tveggja metra reglunnar í vor sé um að ræða reglu sem gleymist fljótt. „Núna verður fólk að taka sér aftur smá tíma í að læra regluna upp á nýtt og viðhalda henni eins og best við getum.“

Ásgeir segist telja, og vona, að háar fjársektir og jafnvel boð um lokun staða, ef ekki er staðið sig í stykkinu er kemur að sóttvörnum, hafi með sér fælingarmátt.

„Nú þurfum við veitingamenn, sérstaklega í ljósi umræðunnar undanfarna daga að taka höndum saman og virða þessar reglur og gera allt í okkar valdi til að hindra að okkur verði hreinlega gert að loka,“ sagði Ásgeir Guðmundsson hjá Röntgen áður en hann bætti við lokaorðunum. „Einhverjar tekjur eru betri en engar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.