Innlent

Hvetur fólk til að fagna Hinsegin dögum heima

Sylvía Hall skrifar
Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson í Listasafni Reykjavíkur þar sem sýning fer fram í tengslum við Hinsegin daga í ár.
Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson í Listasafni Reykjavíkur þar sem sýning fer fram í tengslum við Hinsegin daga í ár. Vísir

Ekkert varð að opnunarhátíð Hinsegin daga í gær fyrir skipulagða dagskrá hennar sem standa átti fram á sunnudag. Hertar sóttvarnareglur gera það ómögulegt að þessi önnur fjölmennasta hátíð landsins geti farið fram og því verður engin Gleðiganga í fyrsta skipti í tuttugu ár.

Einhverjir viðburðir verða þó sendir út á netinu og formaður hátíðarinnar setti hana heima í stofu hjá sér í gær, en fólk er einmitt hvatt til að vera hinsegin heima að þessu sinni. Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, formaður Hinsegin daga, segir margar leiðir til þess að fagna fjölbreytileikanum í ár.

„Markmiðið á Hinsegin dögum hefur verið sýnileiki og við erum að hvetja alla til að vera eins sýnilegir og þeir geta á samfélagsmiðlum, skreyta heima hjá sér og búa til hinsegin umhverfi í kringum sig. Vonandi fagna flestir hátíðinni og laugardeginum, fara kannski í gleðigöngutúr frekar en gleðigöngu,“ segir Vilhjálmur.

Þá er fólk hvatt til þess að deila fögnuðinum undir myllumerkinu #hinseginheima til þess að minna alla á samstöðuna.

„Þrátt fyrir að við verðum kannski með minni sýnileika í raunformi og viðburðum og göngu, þá erum við enn þá til. Við erum bara heima hjá okkur og við þurfum að hlúa að hvort öðru, bæði í hinsegin samfélaginu og samfélaginu í heild sinni.“

Hann segir sýnileikann skipta miklu máli fyrir hinsegin fólk.

„Sérstaklega í göngunni, þar sem hópar eru að safnast saman sem maður sér ekkert í sjónvarpinu eða öðrum miðlum. Þess vegna vildum við að fólk gæti klikkað á þetta myllumerki og hitt annað hinsegin fólk.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.