Innlent

Rafmagnslaust á Akureyri og víðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Það er dimmt um að lítast á Glerártorgi.
Það er dimmt um að lítast á Glerártorgi. Mynd/Aðsend

Uppfært 14:27: Rafmagn er komið á í Eyjafirði

Rafmagnslaust er á Akureyri, Dalvík og nágrenni eftir útleysingu spennis í tengivirkinu á Rangarávöllum klukkan 09:27 í dag. Einn var fluttur á sjúkrahús vegna skammhlaupsins í tengivirkinu.

Samkvæmt upplýsingum af vef Landsnets stendur yfir vinna við að komast að því hvað olli útleysingunni.

Í tilkynningu á vef RARIK segir:

„Rafmagnstruflun er í gangi í landskerfinu á Norðurlandi og er verið að vinna í að byggja upp kerfið Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Norðurlandi í síma 528 9690 og kort af svæðinu má sjá á www.rarik.is/rof.“



Einn fluttur á sjúkrahús

Í samtali við Vísi segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs hjá Landsneti, að spennirinn hafi leyst út þegar unnið var við viðgerðir vegna smærri bilunar. Þá hafi orðið skammhlaup sem olli enn víðtækara rafmagnsleysi.

RÚV greinir frá því að einn hafi verið fluttur á sjúkrahús vegna skammhlaupsins. Einar staðfestir þetta í samtali við Vísi en segir að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi fengið bendi allt til þess að viðkomandi sé lítið slasaður.

Einar segir að horft sé til þess að rafmagn verði komið aftur á milli klukkan eitt og tvö. Það sé þó ekkert fast í hendi, þar sem erfitt sé að segja til um það meðan unnið er að viðgerðum.

Hann segir nákvæma ástæðu bilunarinnar ekki liggja fyrir þó líklegt sé að hún tengist áðurnefndum viðgerðum. Málið verði rannsakað nánar og mikilvægt sé að greina það ofan í kjölinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×