Tónlist

Ólafur Arnalds tilnefndur til Emmy-verðlauna

Kjartan Kjartansson skrifar
Ólafur Arnalds eygir möguleika á Emmy-verðlaunum í haust.
Ólafur Arnalds eygir möguleika á Emmy-verðlaunum í haust. Benjamin Hardman

Íslenski tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds var tilnefndur til bandarísku Emmy-sjónvarpsverðlaunanna fyrir besta titillag sjónvarpsþáttar í dag. Ólafur samdi titillagið fyrir glæpaþættina „Defending Jacob“.

„Það var verið að tilnefna mig til Emmy-verðlauna,“ tilkynnti Ólafur fylgjendum sínum á Twitter nú í dag.

Lag hans er eitt sex laga sem eru tilnefnd í flokknum besta frumsamda titillagið. Á meðal keppinauta Ólafs um verðlaunin er bandaríski rapparinn Rza úr sveitinni Wu-Tang en hann samdi tónlist fyrir heimildarmynd um sögu hennar.

Eins og áður sagði samdi Ólafur titillag þáttanna en Atli Örvarsson samdi aðra tónlist í þeim.

Til stendur að Emmy-verðlaunin verði veitt 20. september en ekki hefur verið tekin ákvörðun um snið verðlaunahátíðarinnar í ljósi kórónuveirufaraldursins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×