Innlent

Garðbæingar og Seltirningar mótfallnir Borgarlínu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Á þessari mynd má sjá fyrstu 25 stöðvarnar sem áætlað er að verði teknar í notkun í fyrsta áfanga Borgarlínu árið 2023.
Á þessari mynd má sjá fyrstu 25 stöðvarnar sem áætlað er að verði teknar í notkun í fyrsta áfanga Borgarlínu árið 2023. borgarlína

Borgarlína nýtur áfram mikils stuðnings, ef marka má könnun sem Zenter vann fyrir Fréttablaðið. Stuðningurinn er mestur í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði en í Garðabæ og Seltjarnarnesi mælist meiri andstaða við Borgarlínu.

Næstum helmingur þeirra 1400 sem létu í ljós afstöðu sína í könnuninni segist hlynntur Borgarlínu en þrír af hverjum tíu eru henni andvígir. Stuðningurinn hefur þannig minnkað lítið eitt frá því í október, þegar Zentar vann sambærilega könnun. Konur eru hlynntari hraðvagnakerfinu en karlar og stuðningurinn er meiri meðal yngri aldurshópa.

Þegar litið er til einstakra sveitarfélaga nýtur Borgarlínan mests stuðnings í Reykjavík. Þar mælist 57 prósent stuðningur en 29 prósent Reykvíkinga segjast andvíg verkefninu. „Það kemur kannski ekki á óvart að stuðningurinn sé sterkastur þar sem framkvæmdirnar varða fólk mest og fyrstu áfangarnir eru,“  segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við Fréttablaðið

Mesta andstaðan á Seltjarnarnesi

Næstmestur stuðningur er í Kópavogi og í Hafnarfirði þar sem tæplega helmingur segist hlynntur Borgarlínu og á bilinu 20 til 25 prósent segjast henni mótfallin. Skiptari skoðanir eru í Mosfellsbæ, þar segjast 38 prósent styðja verkefnið en 35 andvíg því.

Í Garðabæ og á Seltjarnarnesi mælist hins vegar meiri andstaða við Borgarlínu heldur en stuðningur. Aðeins um þriðjungur Garðbæinga er hlynntur Borgarlínu en um helmingur mótfallinn henni. Svipaða sögu er að segja af Seltjarnarnesi. Þar segjast 39 prósent styðja verkefnið en heilt 61 prósent aðspurðra Seltirninga er andvígt Borgarlínu.

Borgarlína er hraðvagnakerfi á hjólum sem ekur á sérrými með forgangi á gatnamótum. Vagnar Borgarlínu munu geta tekið um 150-200 farþega, „tíðni ferða verður mikil, stöðvar verða yfir- byggðar, aðlaðandi og þægilegar með góðu aðgengi beint inn í vagnanna,“ eins og það er orðað á kynningarvef Borgarlínunnar þar sem nálgast má frekari upplýsingar um verkefnið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.