Innlent

„Fólk er að kjósa að Flugfreyjufélag Íslands verði áfram stéttarfélagið okkar“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins. Vísir/Egill

Formaður Flugfreyjufélags Íslands segir það ekki koma á óvart að nýr kjarasamningur hafi verið samþykktur í dag. Atkvæðagreiðslan hafi ekki einungis snúist um nýjan kjarasamning heldur einnig um það hvort Flugfreyjufélagið yrði áfram stéttarfélag flugfreyja.

„Nei, þetta kemur svo sem ekki á óvart að samningurinn hafi verið samþykktur. Við vorum búin að finna þetta hjá okkar félagsmönnum að það stefndi í sátt,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, í samtali við fréttastofu.

Hún segir félagsmenn aðallega sátta með undirritun samningsins vegna þeirra aðgerða sem Icelandair ætlaði að grípa til. „Fólk er aðalega sátt vegna þeirra aðgerða sem átti að fara í, með því að segja öllum upp og leita annarra leiða hjá stéttarfélagi sem er ekki til. Það er nokkuð ljóst að þetta hefur örugglega haft áhrif á einhverja.

Hins vegar hafi stjórn og samninganefnd Flugfreyjufélagsins metið það svo að „það besta í ömurlegri stöðu væri að ganga til samninga.“

„Með þessu eru félagsmenn okkar í raun að standa á bak við stéttarfélagið sitt og eru sammála að það hafi verið það rétta í stöðunni,“ segir Guðlaug.

Samningurinn sem var samþykktur er í raun sá sami og félagsmenn FFÍ felldu fyrr í þessum mánuði. Örfáar breytingar voru gerðar á honum. „Fólk er með þessu líka að kjósa að Flugfreyjufélag Íslands verði áfram stéttarfélagið okkar og í rauninni að við höfum eitthvað um okkar kaup og kjör að segja,“ segir Guðlaug.

„Það er alveg ljóst að ef að atvinnurekandi ætlar að stofna nýtt stéttarfélag að þá höfum við ekkert um þetta að segja, þannig að fólk er ekki einungis að kjósa um kjarasamning heldur líka það.“

Enn er ekki orðið ljóst hve margir félagsmenn FFÍ verði ráðnir aftur til starfa hjá Icelandair en Guðlaug gerir ráð fyrir að það muni liggja fyrir á næstu dögum. Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum FFÍ sem störfuðu hjá félaginu en drógu svo uppsagnirnar til baka. Þó er ekki ljóst hve margir félagsmenn fái að snúa aftur til starfa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.