Innlent

Undir­býr frekari flutninga opin­berra stofnana út á land

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hyggst færa fleiri opinberar stofnanir út á land.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hyggst færa fleiri opinberar stofnanir út á land. Vísir/Vilhelm

Félags- og barnamálaráðherra hyggst flytja fleiri opinberar stofnanir út á land á næstunni. Brunavarnasvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verður flutt norður á Sauðárkrók í haust að ákvörðun ráðherrans en sérfræðingar innan deildarinnar hafa áður lýst því yfir að þeir hyggist ekki flytjast búflutningum norður.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að það væri mikilvægt fyrir landsbyggðina að þangað séu fluttar opinberar stofnanir. Því fylgi mikil verðmætasköpun sem einnig skapi fjölbreytni.

„Það er þjóðhagslega mikilvægt, við erum að reyna að byggja allt upp hér í kring um landið. Atvinnuuppbyggingu, gjaldeyrisskapandi uppbyggingu, hvort sem er í ferðaþjónustu, landbúnaði, iðnaði, einhverri náttúrunýtingu og þessi tegund starfa sem opinber störf eru þau styðja mjög vel fyrir þá uppbyggingu,“ segir Ásmundur. „Skapar aukna fjölbreytni, skapar betri stoðir undir þessa auðlindanýtingu og gjaldeyrissköpun þjóðarinnar.“

Ákvörðun Ásmundar um að flytja brunavarnasvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur verið harðlega gagnrýnd af starfsmönnum þess og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Sex menn sem búa yfir sérþekkingu í brunamálum og starfa í deildinni eru allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu og ætlar enginn þeirra að flytja búferlum til Sauðárkróks.

„Ég held það sé alveg ljóst að um það séu pólitískt skiptar skoðanir hversu hart eigi að ganga fram í þessu. Mín skoðun er, og hefur alltaf verið, sú að við eigum að ráðast í róttækar aðgerðir til þess að dreifa hinum opinberu störfum betur,“ segir Ásmundur. „Við sjáum það að nágrannaþjóðir okkar, Norðmenn og Danir hafa verið að gera þetta með góðum árangri.“

Hann segist sannfærður um að mikill meirihluti þjóðarinnar vilji sjá meiri dreifingu á opinberum stofnunum um landið. „Ég held það þurfi að taka frekari pólitískar ákvarðanir um flutning opinberra starfa út á land, líkt og ég var að gera með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.“

Hann tekur dæmi um flutning Matvælastofnunar á Selfoss, Landmælinga Íslands til Akraness og Atvinnuleysistryggingar á Skagaströnd. „Það er vinnustaður á Skagaströnd í dag sem skiptir miklu máli fyrir það samfélag. Ég held að við eigum að stíga frekari skref í þessa veruna.“

„Ég er að undirbúa frekari skref í þessa veruna. Frekari flutninga.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan. 


Tengdar fréttir

Fresta lokun fangelsisins á Akureyri

Dómsmálaráðherra segist hafa farið fram á það við fangelsismálastjóra að lokun fangelsisins á Akureyri verði frestað til 15. september.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.