Innlent

Kæru geislahræddra vegna 5G-væðingar vísað frá

Kjartan Kjartansson skrifar
5G er ný kynslóð farnets sem býður upp á hraðari gagnaflutninga en eldri 4G-tækni. Hún notast við hærri bylgjutíðni og dregur merki frá 5G-sendum því skemur en þau eldri. Ekkert bendir til þess að geislar frá 5G-sendum hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks.
5G er ný kynslóð farnets sem býður upp á hraðari gagnaflutninga en eldri 4G-tækni. Hún notast við hærri bylgjutíðni og dregur merki frá 5G-sendum því skemur en þau eldri. Ekkert bendir til þess að geislar frá 5G-sendum hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks. Vísir/Getty

Úrskurðarnefnd fjarskiptamála vísaði frá kæru félags og einstaklinga sem óttast heilsuáhrif rafbylgna á úthlutun fjarskiptatíðna fyrir 5G-senda. Kærendurnir voru ekki taldir hafa lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Kæran varðaði úthlutun Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðniheimildum til þriggja fjarskiptafyrirtækja fyrir svonefnt 5G-fjarnet, nýja kynslóð þráðlausrar samskiptatækni. Að henni stóðu fjórir ónafngreindir einstaklingar auk Geislabjargar, félags fólks um frelsi frá rafmengun. Kröfðust þau að úthlutunin yrði felld úr gildi eða henni frestað á meðan umhverfisáhrif væru könnuð.

Í úrskurði sínum benti úrskurðarnefndin á að sá sem krefst endurskoðunar stjórnvaldsákvörðunar þurfi að sýna fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Það taldi nefndin að kærendurnir hefðu ekki og vísaði kærunni því frá. Ríkissjóður þarf að greiða 815.000 krónur í málskostnað.

Nokkuð hefur borið á hópum sem hafa áhyggjur af mögulegum heilsufarsáhrifum rafbylgna frá 5G-sendum þrátt fyrir að sérfræðingar og alþjóðastofnanir undirstriki að ekkert bendi til þess að þær hafi skaðleg áhrif. Þannig telja þeir sem stóðu að kærunni að þeir hafi sjálfir fundið fyrir áhrifum af rafsegulgeislun.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Geislavarnir ríkisins, Póst- og fjarskiptastofnun og Evrópusambandið eru á meðal þeirra stofnana sem staðfesta að fólki stafi ekki hætta af bylgjum frá 5G-sendum.

Sums staðar hefur ótti við 5G-tæknina blandast samsæriskenningum um Covid-19, sjúkdóminn sem nýtt afbrigði kórónuveirunnar veldur. Þannig hafa skemmdarverk verið unnin á 5G-fjarskiptamöstrum í sumum löndum.

Vísir er í eigu Sýnar hf. sem er eitt af þremur fjarskiptafyrirtækjum sem Póst- og fjarskiptastofnun úthlutaði tíðniheimildum fyrir 5G-senda og kæran sem fréttin fjallar um varðaði.


Tengdar fréttir

Ekki verið sýnt fram á skað­semi 5G á heilsuna

Ekki hefur verið sýnt fram á að 5G hafi skaðleg áhrif á heilsuna svo lengi sem styrkur rafsegultíðninnar er undir viðmiðunarmörkum sem gilda segir Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.