Innlent

Bleyta í kortunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Regnboga sjáum við þegar staðbundið skúraveður og sólskin fara saman.
Regnboga sjáum við þegar staðbundið skúraveður og sólskin fara saman. Vísir/Vilhelm

Landsmenn mega vænta einhverrar vætu næstu daga ef marka má spákort Veðurstofunnar. Hitinn verður að jafnaði á bilinu 10 til 17 stig út vikuna en þá gæti kólnað nokkuð.

Útlit er fyrir hæga breytilega átt eða hafgolu í dag, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt en stöku skúrir síðdegis norðaustantil á landinu. Þá má jafnframt búast við þokubökkum austast á landinu. Hitinn gæti náð allt að 16 stigum í dag en Veðurstofan tilgreinir ekki hvaða landshluti má búast við mestu hlýindunum.

Það má jafnframt búast við smáskúrum á víð og dreif á morgun. Í innsveitum norðanlands segir Veðurstofan þó að von sé á „hressilegri skúrum.“ Hitinn muni þó haggast lítið frá deginum áður.

Það muni hins vegar breytast á fimmtudag þegar útlit er fyrir norðaustan golu eða kalda með lítilsháttar rigningu eða skúrum á austanverðu landinu. Þá mun kólna að sögn Veðurstofunnar, helst fyrir norðan og austan. Þar má vænta þess að hitinn verði á bilinu 5 til 10 stig en 10 til 16 stig annars staðar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Breytileg átt 3-8, en suðvestan 8-13 m/s við SA-ströndina síðdegis. Skúrir á víð og dreif, einkum síðdegis í innsveitum NA-lands. Hiti yfirleitt 10 til 17 stig, hlýjast á SA-landi.

Á fimmtudag:

Norðaustan 5-13 m/s. Bjart með köflum V-lands, en dálítil rigning eða skúrir í öðrum landshlutum. Hiti 10 til 16 stig, en 5 til 10 stig um landið N- og A-vert.

Á föstudag:

Norðaustlæg átt með skúrum um landið S-vert og lítilsháttar rigningu við N-ströndina. Hiti 5 til 13 stig, mildast SV-lands.

Á laugardag:

Norðaustanátt og dálítil rigning með köflum, en þurrt SV-til á landinu. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast SV-lands.

Á sunnudag og mánudag:

Norðaustanátt og rigning með köflum, en úrkomulítið á V-verðu landinu á mánudag. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.