Lífið

Gullmedalía í stærstu gin blindsmökkun heims

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnar setti ginið kom á markað í mars.
Arnar setti ginið kom á markað í mars.

Íslenska ginið Ólafsson gin fékk gullmedalíu í stærstu gin-blindsmökkun áfengisgeirans sem sagt er frá í nýjasta tölublaði fagmiðilsins Spirits Business. Dómararnir dreyptu á um tvö hundruð gintegundum í nokkrum flokkum í smökkun þessa árs.

Ólafsson er í Super Premium flokknum og var eitt af fimm ginum sem fengu gullmedalíu í þeim flokki.

„Þetta gefur okkur góðan byr í seglin og eykur möguleika okkar á að koma Ólafsson til hafnar hjá fleiri söluaðilum í útlöndum,“ segir Arnar Jón Agnarsson, framkvæmdastjóri Eyland Spirits framleiðanda ginsins.

Ólafsson er afrakstur langrar þróunarvinnu sem Arnar hefur leitt i samvinnu við vellauðuga bandaríska fjárfesta og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðanda.

Arnar er fyrrum atvinnumaður í handbolta en Bandríkjamönnunum kynntist hann í gegnum starf sem laxveiðileiðsögumaður.

„Þetta eru menn sem hafa tekið ástfóstri við náttúru Íslands og hafa mikla trú á að sú tenging hjálpi okkur við að koma Ólafsson á framfæri á heimsvísu,“ segir Arnar og útskýrir að ginið sé nefnt í höfuðið á skáldinu og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni sem bar ljós upplýsingarinnar inn í íslenska torfakofa á 18. öldinni.

Íslenskar jurtir eru í stóru hlutverki og að sjálfsögðu íslenska vatnið líka sem Arnar segir að sé svo algjört lykilatriði. „Með því háa sýrustigi sem er í vatninu okkar næst fram einstök mýkt í ginið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×