Innlent

Yfirbuguðu mann vopnaðan hnífi á skemmtistað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt.
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt mann sem reyndist vopnaður hnífi á skemmtistað í miðborginni. Maðurinn reyndi að veitast að öðrum manni.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar þar sem enn fremur segir að maðurinn hafi reynt að komast undan. Það virðist þó ekki hafa tekist því maðurinn var yfirbugaður af lögreglumönnum sem beittu varnarúða. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Lögregla hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og í nótt en alls voru bókuð 88 mál að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

 Þannig virðast starfsmenn verslunar hafa elt upp bíræfinn þjóf sem reyndi að stela farsíma úr afgreiðslu á ónefndu fyrirtæki. Lögreglan mætti á svæðið og handtók manninn, reyndist hann vera með aðra muni í vörslu sinni sem hann gat ekki get grein fyrir og eru þessir munir taldir vera þýfi.

Þá var annar hnífamaður handtekinn af lögreglumönnum á Stöð 1 sem nær yfir Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnes. Lögregla fékk tilkynningu um mann í annarlegu ástandi sem var grunaður um þjófnað. Lögregla handtók manninn sem streittist reyndar á móti handtöku og kom í ljós að hann var með hníf í buxnavasanum.

Þá virðist hafa verið töluvert um gleðskap í Kópavogi og Breiðholti en lögreglan á því svæði var aðallega í því að sinna tilkynningum um samkvæmishávaða í heimahúsum, að því er segir í dagbók lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.