Innlent

Amfetamínframleiðsla í Borgarfirði: Dómar yfir Alvari, Einari og Margeiri mildaðir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alvar Óskarsson, Einar Jökull Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson voru í dag dæmdir í sjö og sex ára fangelsi fyrir fíkniefnaframleiðslu.
Alvar Óskarsson, Einar Jökull Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson voru í dag dæmdir í sjö og sex ára fangelsi fyrir fíkniefnaframleiðslu. Vísir/Vilhelm

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Alvari Óskarssyni, Einari Jökli Einarssyni og Margeiri Pétri Jóhannssyni var í dag mildaður af landsrétti en þremenningarnir voru dæmdir fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði.

Alvar mun þurfa að afplána sex ára fangelsisdóm en Einar og Margeir fimm ár hvor um sig en Héraðsdómur hafði dæmt Alvar í sjö ára fangelsi og Einar og Margeir í sex ára fangelsi hvorn um sig. Alvar og Einar Jökull hafa báðir verið sakfelldir fyrir stórfelld fíkniefnabrot áður en Margeir á engan sakaferil að baki.

Þremenningarnir voru fyrir Héraðsdómi allir ákærðir fyrir að hafa haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, 206 kannabisplöntur, 111,5 grömm af kannabisstönglum og að hafa um nokkurt skeið ræktað þessar plöntur. Margeir játaði á sínum tíma á sig þessi brot og játaði Alvar að hafa átt minniháttar aðild að brotinu.

Þá voru þeir einnig ákærðir fyrir aðild að umfangsmikilli amfetamínframleiðslu sem fór fram í sumarbústað í Heyholtslandi í Borgarfirði í fyrrasumar en alls var lagt hald á tæp 8.600 grömm af efninu.

Þeir gagnrýndu allir rannsókn málsins þar sem gögnum hafði verið haldið frá þeim og þeir þar af leiðandi hefðu ekki getað sýnt fram á að þeir hafi verið viðstaddir annars staðar í einhverjum tilvikum. Þeir viðurkenndu þó allir að hafa verið á vettvangi þann 7. júní 2019 en lögreglan stöðvaði framleiðsluna þann dag.

Þá var Alvar jafnan ákærður fyrir að hafa haft í bifreið sinni 7,78 grömm af amfetamíni þegar hann var stöðvaður af lögreglu á Vesturlandsvegi þann 7. júní 2019. Hann játaði að hafa haft efnið í vörslu en hélt því fram að hann hafi tekið efnið með sér úr sumarhúsinu fyrir slysni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×