Innlent

Vinna að því að staðsetja hina tvo íbúa hússins

Andri Eysteinsson skrifar
Frá vettvangi brunans á Vesturgötu í dag.
Frá vettvangi brunans á Vesturgötu í dag. Vísir/Vilhelm

Sex manns eru skráðir sem íbúar í húsinu á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs sem varð alelda á fjórða tímanum í dag. Fjórir hafa verið fluttir á slysadeild en Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu segir rannsókn lögreglunnar snúast að því að staðsetja hina tvo íbúa hússins.

„Eina sem við vitum eru að það eiga að vera sex íbúar í húsinu. Það er búið að flytja fjóra með sjúkrabíl á slysadeild. Rannsókn lögreglu snýr að því að finna út hvar hinir tveir aðilarnir eru staddir,“ sagði Ásgeir í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2.

Tilkynning barst um mikinn eld í húsinu á Vesturgötu klukkan 15:15 í dag og var allt lið slökkviliðs og lögregla sent á vettvang og stendur slökkvistarf nú enn yfir

Ásgeir sagði ekki hægt að tjá sig um ástand þeirra sem slösuðust í brunanum en tveir voru handteknir á eða við vettvang brunans, sæta þau rannsókn vegna málsins.

„Okkur fannst vera þeirra á vettvangi ekki passa alveg inn í myndina. Við erum bara að rannsaka af hverju fólkið var þarna,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×