Innlent

Stefnt að því að niðurgreiðsla innanlandsflugs hefjist í haust

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Akureyrarflugvelli. Farþegar ganga frá borði úr vél Air Iceland Connect.
Frá Akureyrarflugvelli. Farþegar ganga frá borði úr vél Air Iceland Connect. Stöð 2/Skjáskot.

Samgönguráðherra segir stefnt að því að niðurgreiðslur innanlandsflugs til íbúa landsbyggðarinnar, samkvæmt skosku leiðinni svokölluðu, hefjist í haustbyrjun. Miðað verður við að hver íbúi fái fjörutíu prósenta styrk fyrir allt að tveimur ferðum fram til áramóta. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Farþegarnir kvarta undan háum fargjöldum og ráðamenn flugfélaganna undan taprekstri. Niðurstaða stjórnvalda er að fara skosku leiðina.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

„Við myndum byrja vonandi í haust. Það er enn unnið samkvæmt því að annaðhvort 1. september eða 1. október þá hefjist þetta,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Niðurgreiðslurnar munu ná til þeirra sem búa í minnst 270 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík og í eyjum án vegasambands og er miðað allt að fjörutíu prósenta styrk fyrir ákveðnum fjölda ferða á ári.

„Með stuðningi við tvo leggi á þessu ári og síðan þá meira á næsta ári þar sem þá væri heilt ár undir. Og síðan eftir atvikum, hvernig þetta gengur, þá sjáum við fyrir okkur, alveg eins og fyrirmyndin skoska, í Skotlandi, að geta þá jafnvel eflt þetta enn frekar ef að eftirspurn verður,“ segir ráðherrann.

Frá Hornafjarðarflugvelli. Farþegar ganga um borð í vél Flugfélagsins Ernis.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Niðurgreiðslurnar þykja sanngirnismál þar sem innanlandsflugið hefur lengi þurft að keppa við niðurgreiddar ferjusiglingar og niðurgreiddar strætóferðir. Þá er margvísleg þjónusta ríkisins eingöngu í boði á höfuðborgarsvæðinu.

„Og auðvitað að ýta undir meira jafnræði fyrir íbúana, sem þurfa oft að sækja þjónustu hingað. En einnig eru við auðvitað að horfa á vonandi í vaxandi mæli á störf án staðsetningar og meira á ferðalög fólk. Og þá er mjög gott að efla innanlandsflugið því það er mjög umhverfisvænn samgöngumáti,“ segir Sigurður Ingi.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Ríkið vill byggja nýja flugstöð í Reykjavík

Samgönguráðherra vonast til að hægt verði að bjóða út smíði nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli fyrir áramót. Tillaga um að Isavia semji við Air Iceland Connect um að taka yfir verkefnið var kynnt í ríkisstjórn í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×