Lífið

„Er rosalega mikil landsbyggðartútta“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eva Laufey er lögð af stað um landið.
Eva Laufey er lögð af stað um landið.

Eva Laufey og nýi matarvagninn hennar ferðast um landið í sumar og hófst fjörið á laugardaginn.

Áfangastaðirnir verða sex talsins og mun Eva gefa bragðmiklar samlokur á hverjum stað.

Í Íslandi í dag á Stöð 2 á laugardaginn sagði hún áhorfendum frá þessum skemmtilega verkefni, þáttunum sem fara af stað í kjölfarið og fór yfir það hvernig hægt sé að reiða fram geggjaða grísasamloku í garðpartýum í sumar.

„Við ætlum að ferðast um Ísland og byrjum í Þorlákshöfn, svo í Höfn í Hornafirði, svo er það Egilsstaðir og Húsavík og þá förum við í smá pásu og tökum síðan seinni rúntinn í ágúst,“ segir Eva þegar Sindri Sindrason leit við hjá henni í matarvagninn í síðustu viku.

„Hugmyndin er að kynnast landinu, fólkinu þar og matnum. Á hverjum stað finn ég eitt hráefni sem er vinsælt þar og útbý samloku. Í Þorlákshöfn ætlum við að reiða fram grænmetissamloku þar sem við fáum pestó frá bændum þar, á Höfn í Hornafirði fáum við humar.“

Eva ætlar að kynna sér bæði matarmenninguna á stöðunum og líka þeirrar afþreyingar sem hægt er að prófa þar.

„Ég er rosalega mikil landsbyggðartútta og ég elska landsbyggðina, þar er svo rosalega margt spennandi.“

Eva er stödd í Höfn á Hornafirði núna og sökum veðurs verður hátíðin á Höfn í hádeginu á morgun.

Síðan verður hún á Egilsstöðum 17. júní og á Húsavík 19. júní.

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×