Lífið

Ricky Valance fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Ricky Valance á tónleikum árið 1996.
Ricky Valance á tónleikum árið 1996. Getty

Velski söngvarinn Ricky Valance er látinn, 84 ára að aldri.

BBC hefur þetta eftir umboðsmanni Valance. Valance, sem hét David Spencer, réttu nafni, varð fyrsti velski sólósöngvarinn til að eiga lag í toppsæti breska vinsældalistans. Tókst það með laginu Tell Laura I Love Her frá árinu 1960.

Valace gekk til liðs við breska flugherinn sautján ára gamall áður en hann hellti sér út í tónlistina.

Umboðsmaður Valance segir hann hafa glímt við heilabilun og hafði dvalið á sjúkrahúsi síðustu mánuði.

Lagið Tell Laura I Love Her fjallaði um sorglega sögu stráks að nafni Tommy og ást hans á stúlkunni Lauru. Lagið þótti umdeilt á sínum tíma en náði engu að síður toppsæti vinsældalistans þar sem það sat sem fastast í þrjár vikur og seldist í rúmlega milljón eintaka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×