Innlent

Friðlýsing Goðafoss undirrituð

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Goðafossi í dag.
Frá Goðafossi í dag. Vísir/Tryggvi

Friðlýsing Goðafoss, eins vatnsmesta foss landsins, var undirrituð við fossinn sjálfan í dag. Fossinn sem er að finna í Skjálfandafljóti er einn af vinsælustu ferðamannastöðum norðurlands.

Friðlýsingin var undirrituð af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, að viðstöddum sveitarstjórnarmönnum í Þingeyjarsveit, landeigendum, fulltrúum ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, heimafólki og öðrum góðum gestum.

Við athöfnina var boðið upp á ljúfa tóna norðlenska blásarakvintettsins Norðangarra og að henni lokinni var boðið til kaffisamsætis á Fosshóli.

„Í dag friðlýstum við eina helstu náttúruperlu landsins,“ sagði umhverfisráðherra við athöfnina. „Með friðlýsingunni verður komið á skipulegri umsjón með svæðinu með landvörslu og þar með einnig fræðslu og eftirliti. Friðlýsing Goðafoss er afar ánægjulegt skref í náttúruvernd á Íslandi og tryggir að komandi kynslóðir geti notið hans um ókomna tíð.“

Fossinn greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og breytist ásýnd hans eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Hæstur er fossinn 17 metrar á hæð og er hann um 30 metrar að breidd.

Nafn fossins er sagt dregið af goðalíkneskjum þeim er Þorgeir Þorkelsson, Ljósvetningagoði, á að hafa varpað í fossinn í kjölfar þess að honum var falið að ná sáttum milli heiðinna manna og kristinna og hann tekið upp nýjan sið fyrir meira en þúsund árum síðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×