Menning

Inni­púkinn stendur keikur eftir erfiðan vetur og færir sig í Gamla bíó

Sylvía Hall skrifar
Innipúkinn verið athvarf þeirra sem vilja halda sig í bænum um verslunarmannahelgina undanfarin ár.
Innipúkinn verið athvarf þeirra sem vilja halda sig í bænum um verslunarmannahelgina undanfarin ár. Innipúkinn/Brynjar Snær

Forsvarsmenn Innipúkans hafa hafið undirbúning fyrir hátíðina í ár og er stefnan sett á að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu um verslunarmannahelgina líkt og undanfarin ár. Þrátt fyrir ýmsar hindranir undanfarna mánuði sé staðan núna einfaldlega sú að þeir ætli að kýla á þetta.

„Það er planið. Við vorum aðeins byrjaðir að hugsa um þetta áður en Covid skall á. Við erum búnir að vera að vinna þetta áfram. Eins og staðan er núna og miðað við hvernig ráðamenn hafa talað í fjölmiðlum að þá ætlum við bara að kýla á þetta. Það er ekki nema að það komi eitthvað bakslag eða það verði ekki losað meira fyrir núverandi samkomubann,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson skipuleggjandi hátíðarinnar.

Hann segir ákveðið stress hafa komið upp á tímabili, ekki einungis vegna kórónuveirufaraldursins heldur einnig vegna þess að margir samstarfsaðilar hátíðarinnar á síðasta ári eru ekki lengur starfandi. Til að mynda hafi Bryggjan Brugghús farið í gjaldþrot, en hana var að finna á Grandanum þar sem hátíðin fór fram á síðasta ári og var hún meðal annars nýtt til tónleikahalds á hátíðinni.

Undirbúningur gengur vel að sögn skipuleggjanda.Innipúkinn/Brynjar Snær

„Við þurftum að fara að teikniborðinu og leita að nýjum stað, sem við höfum alveg gert mikið hjá Innipúkanum,“ segir Steinþór og bætir við að hátíðin hafi í gegnum tíðina verið nokkurs konar flökkuhátíð í miðbænum.

„Við höfum verið í Naustinni að vinna með Húrra og Gauknum á sínum tíma, við höfum verið í Iðnó og með Faktorý og svo framvegis.“

Færa sig í Gamla bíó í ár 

Í ár stendur til að halda hátíðina í Gamla bíó og nýta svo skemmtistaðinn Röntgen fyrir minni viðburði á hátíðinni, en Steinþór er einn eiganda Röntgen. Þannig sé hægt að dreifa mannfjöldanum.

„Versta sviðsmyndin er ef núverandi samkomubann helst óbreytt, næst versta sviðsmyndin ef ef það verður aðeins leyfilegt að hafa fimm hundruð manns og opið til ellefu en þá getum við alveg sniðið okkur stakk eftir vexti því Gamla bíó er með rétt rúmlega fimmhundruð manna leyfi, við þyrftum bara að loka útisvæðið betur af. Svo er Röntgen með rúmlega hundrað manna leyfi.“

Sem skemmtistaðaeigandi og tónleikahaldari hefur Steinþór góða tilfinningu fyrir skemmtanalífi landsins. Hann segist finna fyrir því að fólk sé farið að langa að lyfta sér upp eftir kórónuveirufaraldurinn og það sé ekki einskorðað við Reykvíkinga.

„Maður finnur fyrir því á landsbyggðinni og annars staðar að það er þorsti í fólki. Ég held að fólk kunni betur að meta menningu og lifandi viðburði á þessum tímum, það að sjá fólk performa og komast út á meðal fólks,“ segir Steinþór.

Steinþór segir tónlistarviðburði og menningu vera enn mikilvægari nú þegar fólk hefur þurft að halda samkomum í algjöru lágmarki.Innipúkinn/Brynjar Snær

Ætla áfram að vera „helsta tónlistarhátíð verslunarmannahelgarinnar“ 

Hann er því vongóður að stóra planið gangi upp og Innipúkinn verði að veruleika í ár. Nú þegar sé búið að bóka Gamla bíó og öll vinna miði að því að hátíðin fari fram. Þá hafi þeir haft samband við Reykjavíkurborg varðandi það að loka götunni fyrir utan bíóið svo stemningin geti verið sem allra best.

„Við erum nú þegar búnir að bóka nokkrar hljómsveitir, sem ég ætla ekki alveg að tilkynna strax hverjar eru, en við ætlum okkur áfram að vera helsta tónlistarhátíð verslunarmannahelgarinnar.“

Hann vonar að ástandið verði liðið undir lok þegar verslunarmannahelgin gengur í garð og að kjöraðstæður verði fyrir skemmtanahald. Þangað til sé mikilvægt að fólk hugi að heilsunni og fari vel með sig.

„Ég höfða til heilbrigðar skynsemi hjá fólki og vona að það hugsi vel um hvort annað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×