Lífið

Hönnunarsamfélagið bregst við nýrri heimsmynd

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þórey Einarsdóttir stjórnandi HönnunarMars hefur haft í nógu að snúast síðustu vikur til að bregðast við breyttu umhverfi vegna kórónuveirunnar.
Þórey Einarsdóttir stjórnandi HönnunarMars hefur haft í nógu að snúast síðustu vikur til að bregðast við breyttu umhverfi vegna kórónuveirunnar. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Þórey Einarsdóttir tók við starfi stjórnanda HönnunarMars fyrir ári síðan. Í dag var tilkynnt um breytt fyrirkomulag á hátíðinni í ár, en síðustu vikur hjá teyminu á bak við verkefnið hafa einkennst af mikilli óvissu. HönnunarMars verður haldið í júní og verður lögð áhersla á sýningar og sýnendur en Þórey segir að samfélagssáttmálinn verði að sjálfsögðu virtur.„Það kom mér á óvart hversu víðfeðmt starfið er og mér hefur þótt dýr­mætt að fá að kynnast því hvernig hugmyndafræði hönnunar nýtist og hversu víð beiting hennar er,“ segir Þórey í samtali við Vísi. 

Hún segir að þetta fyrsta ár hafi verið lærdóms- og viðburðaríkt, umhverfið einstaklega skapandi og skemmtilegt og kollegarnir frábærir. Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur sett sterkan svip á hennar vinnu.

„Við urðum að endurskipuleggja alla umgjörð utan um hátíðina og dagskránna. Breyta, bæta og aðlaga og óhjákvæmileg varð töluverð röskun á þeim dagskrárliðum sem snúa að alþjóðlegum samskiptum og samstarfi. Þar sem ófyrirséð var hvort og hvenær að gestir, þátttakendur og þeirra verk bærust til landsins. Teymið er líklega búið að skipuleggja um 100 útgáfur af hátíðinni sem stundum hafa bara fengið að lifa í nokkrar mínútur þangað til næsta plan er sett í gang. Þessi veira hélt okkur, eins og flestum, ansi vel á tánum, og gerir enn.“

Þakklát að hafa ákveðið að fresta

Þórey segir að það hafi tekið teymið nokkra daga að komast að lokaniðurstöðu í mars og þetta hafi verið ákveðið ferli.

„Það var töluverður léttir að taka loksins ákvörðunina um halda ekki HönnunarMars í mars heldur í júní. Ákvörðunin var erfið en hún var nauðsynleg í ljósi aðstæðna. Það sem gerði gæfumuninn var að það var ákveðið að hringja í alla þátttakendur, sem eru rúmlega hundrað, og taka samtalið við þá. Það voru þeirra jákvæðu viðbrögð um að fresta sem styrkti okkur í að við værum að taka rétta ákvörðun. Þau voru til í þetta. Þar kom skýrt fram að kjarni hverrar HönnunarMars hátíðar eru þátttakendurnir og sýnendurnir hverju sinni. Sömuleiðis, eftir því sem dagarnir liður og alvarleiki ástandsins fór að raungerast þá vorum þakklát að hafa ákveðið að fresta á þeim tímapunkti sem við gerðum rétt fyrir samkomubann.“

Í þessu breytta umhverfi sem er hér á landi í ár, hentar að hennar mati vel að halda hátíðina í júní.

„HönnunarMars er mikil þátttökuhátíð, fólk að fara á milli sýninga og stuð og gott veður getur skipt sköpum. Það hentar ástandinu vel að geta dreift fjöldanum, verið meira úti, rölt á milli og fylgja samfélagssáttmálanum á meðan maður fyllist innblæstri á sýningum.“

Frá HönnunarMars.HönnunarMars

Þú veist ekki hvað þú veist ekki 

Síðustu vikur hefur oft þurft að breyta um leikáætlun og á einum tímapunkti kom upp sú hugmynd að aflýsa Hönnunarmars alveg í ár.

„Forsendur voru mikið að breytast, óvissan gríðarlega og skilgreiningar á samkomubanni og tveggja metra reglu á reiki. Það var togað og teygt í allar áttir. Það var lærdómsrík ferli og sér í lagi áhugavert að fá tækifæri til að rýna og ræða alla þætti hátíðarinnar í gegnum linsur sem við höfum aldrei notað áður.“

Þórey segir að tillagan að sleppa hátíðinni hafi ávallt verið með í ferlinu og verið rædd, en þó fengið slæmar undirtektir í samtalinu.

„Sér í lagi þar sem HönnunarMars byrjaði í kreppu og hefur verið boðberi bjartsýni, jákvæði og skapandi krafta. Og í ljósi jákvæðra frétta af þróun veirunnar og afléttingu samkomubannsins komust við að þeirri niðurstöðu að nú væri tækifæri til að beina sjónum að hönnun sem drifkrafti til nýsköpunar og sýna hversu mikilvægu hlutverki þessar greinar gegna í samfélaginu, sérstaklega á þessum óvissutímum.“

Áminning um mátt æðruleysisins

Aðspurð um ástæðuna á bak við valið á dagsetningunni 24. til 28. júní fyrir hátíðina, svarar Þórey:

„Það var ákveðið að færa hátíðina eins langt fram og við gætum en þó ekki svo lagt að við sæjum ekki fyrir endann á því og ef við hefðum fært hann lengra inn í haustið, þá erum við komin of nálægt næstu hátíð. Svo við erum mjög spennt að halda HönnunarMars þegar sólin sest ekki og sumarið nær hápunkti í allri sinni dýrð.“

Þessa sömu helgi eru nú planaðar forsetakosningar hér á landi, en það lá ekki staðfest fyrir þegar dagsetningin var valin.

„Það setti strik í reikninginn þar sem forsetakosningarnar eru í raun að taka frá okkur tvo mjög mikilvæga sýningarstaði en þökk sé útsjónarsemi og ástríðu sýnenda þá er verið að leysa það. Eitt af því sem kom út úr Covid var áminningin um mátt æðruleysisins, að sætta sig við það sem við getum ekki breytt og það hefur nýst okkur vel í endurskipulagningu á HönnunarMars. Það er yfirleitt hátíðleg stund að kjósa svo ég mundi segja að það væri bara ávísun að mjög góðum laugardegi að byrja hann á kjörstað og halda svo út í fjölbreytta dagskrá HönnunarMars með fjölskylduna.“

Afl fyrir íslenska hönnun

Dagskráin teygir sig í margar áttir og allir ættu að finna eitthvað í sínu nágrenni og við sitt hæfi.

„Miðbærinn er að taka á sig sterka mynd, þar spilar Hafnartorgið stórt hlutverk, Ásmundasalur, Norræna húsið, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands. Svo eru staðir eins og Hönnunarsafn Íslands, Hafnarborg, Borgarbókasöfnin, Bríetartún, Epal, Seltjarnarnes og svo auðvitað margir fleiri staðir.“ Dagskráin teygir sig í margar áttir og allir ættu að finna eitthvað í sínu nágrenni og við sitt hæfi.“

Opinberar dagsetningar HönnunarMars er 24. - 28. júní en margar sýningar byrja fyrr og verða fram eftir sumri. Þórey mælir því eindregið með því að áhugasamir fylgist vel með og skoði dagskránna á heimasíðu HönnunarMars.

„Umgjörðin verður með breyttu sniði að því leitinu til að mannmargir viðburðir sem hafa verið fastir og vinsælir liðir í hátíðinni eins og alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks, Design Diplomacy, DesignMach og þátttaka erlenda sýnenda verða að bíða þangað til á HönnunarMars 2021. Allur fókus fer á það að miðla glæsilegum sýningum, kynnast okkar fjölbreytta hönnunarsamfélagi og hvetja fólk til að gefa sér tíma til að taka inn og njóta alls þess fjölbreytileika sem dagskrá HönnunarMars hefur upp á að bjóða.“

Nýta tæknina

Þórey segir að eitt af markmiðunum í ár sé að glæða lífi í miðbæinn og miðla dagskrá og stemmingu HönnunarMars til borgarbúa með öruggum hætti.

„HönnunarMars er stærsta kynningarafl íslenskrar hönnunar, hér heima og út, og það verður mikil áhersla á að alla þá fjölbreyttu grósku sem á sér stað í hönnunarsamfélaginu okkar.“

Eins og kom fram á Vísi snemma í dag, verður lykilatriðum eins og DesignTalks, Design Diplomacy, DesignMach frestað til 2021. Ekkert opnunar- og lokahóf verður í þetta sinn og þátttaka erlenda sýnenda og stærri samsýninga verður einnig frestað.

„Við vildum ekki vera að búa til mannmarga viðburði og einbeita frekar að því að miðla innihaldinu með örðum hætti.“

Hafnartorg er ein af staðsetningum HönnunarMars í ár.Vísir/Vilhelm

Hún segir að opnunarhófið og lokahófið séu einfaldlega of fjölmennar samkomur en þar koma iðulega saman á bilinu 500 til 1200 einstaklingar. Því hafi ekki verið annað í stöðunni en að taka þá af dagskrá. Þórey segir að það verði erlendir gestir á hátíðinni en í hvaða mynd er enn óráðið.

„Við erum að vinna í lausnum til þeir geti tekið þátt í hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Það voru staðfestir blaðamenn frá mörgum af stærstu miðlum í heimi eins og Wallpaper,Frame Magazine,DezeenVogue (US/INT),RumGrey Magazine,Kinfolk,Monocle, Elle Decor,Sight Unseen,The Telepgraph,Wanted Design,BOF/Business of Fashion og við erum að halda góðu sambandi við þá aðila og munum sjá til þess að miðla til þeirra sem eiga ekki heimangengt upplýsingum með öðrum hætti í ár“

Þeir sem vilja njóta hönnunar en treysta sér ekki á stóra viðburði geta sótt sýningarnar sem fara fram í minni sýningarsölum og rýmum.

„Ég hvet alla eindregið til að kynna sér dagskránna á heimasíðunni okkar þar eru allar sýningarnar eru með hlekk á Facebook viðburðina en þar er hægt að fá betri yfirsýn yfir umfangi sýningar og tengdum viðburðum. Sömuleiðis erum við að vinna drög að því að miðla dagskránni á samfélagsmiðlum með hollvinum HönnunarMars undir formerkjum #minnhönnunarmars, þegar nær dregur og það er einnig hægt að senda okkur póst á info@honnunarmars.is fyrir þá sem vilja fá frekari aðstoð með dagskránna.“

Nýr veruleiki

Þórey segir að það sé í skoðun að streyma frá ákveðnum viðburðum og verður það kynnt betur þegar nær dregur.

„Það er töluvert sem við erum að gera í fyrsta sinn á þessari hátíð enda óvenjulegar aðstæður og þurfum við sem teymi að vera við öllu búin og geta brugðist hratt við. Það er verið að bregðast við eftirspurn að rafrænni miðlun sem er sömuleiðis partur af því að aðlaga, breyta og bæta við nýjum spennandi verkefnum, sem eru að taka á sig mynd í þessum töluðu orðum. Markmið með þeim verkefnum er að glæða lífi í miðbæinn og miðla dagskrá og stemmingu HönnunarMars til borgarbúa með öruggum hætti. Þannig gefst gestum og gangandi tækifæri á að kynnast og fá innsýn inn í heim nýsköpunar og hönnunar á sínum forsendum og án þess að þurfa að fara inn í rými.“

En eru einhver ákveðin þemu áberandi í sýningunum í ár?

„ Við erum óhjákvæmilega stödd í nýjum veruleika sem allir eru að bregðast við og það er forvitnilegt að sjá hvernig hönnunarsamfélagið er að bregðast við þessari nýju heimsmynd sem blasir við. Nýjar leiðir - Nýr heimur sem var þema DesignTalks eigi við en stór hluti sýninganna hefur tekið breytingum á meðan samkomubannið stóð yfir.“

Grafalvarleg staða fyrir hönnuði

Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur ekki aðeins haft áhrif á viðburði, heldur einnig á tekjur og verkefni hönnuða hér á landi.

„Hönnunarmiðstöð Íslands stóð fyrir könnun á meðal sinna félagsmanna í byrjun apríl þar sem kom fram að um 70 prósent hönnuða og arkitekta fundu fyrir samdrætti í verkefnastöðu og tekjutapi. Ástandið er því grafalvarlegt líkt og í flestum greinum í samfélaginu og hönnuðir hafa ekki farið varhluta af því ástandi þó það sé mis­jafn eft­ir greinum. Það er þó okkar von að ein af afleiðingum ástandsins verði að við sem samfélag lítum inn á við og sjáum hversu öfluga hönnuði og arkitekta við eigum. Og hvernig við getum nýtt þá kunnátta og fagið í heild þvert á samfélagið. HönnunarMars ætti að varpa einhverju ljósi á það.“

Það verður passað upp á hreinlæti í samstarfi við sýnendur og sýningarstaði og treystir á almenning að fara eftir reglum og fylgja samfélagssáttmálanum sem allir ættu að þekkja núna. Þórey segir að flest allir séu meðvitaðir um ástandið og að það þurfi að sótthreinsa og halda fjarlægðar- og fjöldatakmörkunum. Fjöldatakmarkanir verða virtar í góðu samstarfi sýningarstaða og þátttakenda.

„En í raun það sem er mikilvægast er að við öll, þátttakendur og gestir, tökum öll ábyrgð. Við erum öll Almannavarnir. Íslenskt samfélag hefur sýnt það og sannað sú krafa er raunhæf. Okkar verkefni er að halda áfram að minna á það með dyggri aðstoð samfélagssáttmálanum.“

Þórey segir að framkvæmdastjórn Hönnunarmiðstöðvar, stjórn HönnunarMars, Valnefnd HönnunarMars, teymi, starfsnemar og hollvinir HönnunarMars til margar ára hafi reynst ómetanlegir í þessu ferðalagi síðustu mánuði.

„Við ákveðum hvernig framtíðin verður og því́ er gríðarlega mikilvægt að allir taki þátt í samtalinu. Við berum ábyrgð á okkar samfélagi og ein góð leið til þessa að taka þátt í skapandi samtali er að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá HönnunarMars. Sjáumst á HönnunarMars í júní,“ segir Þórey að lokum.


Tengdar fréttir

Erum við saman í sókn?

Hvernig sem á það er litið þá er niðurstaða útboðsins á markaðsátakinu „Saman í sókn“ sem M&C Saatchi stofan var valin til að leiða dapurleg og í ljósi aðstæðna pínleg fyrir skapandi greinar á Íslandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.