Innlent

Spenntust fyrir brenniboltaleik milli kennara og nemenda

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Krakkarnir í Dalskóla eru spenntastir fyrir brenniboltaleik milli nemenda og kennara.
Krakkarnir í Dalskóla eru spenntastir fyrir brenniboltaleik milli nemenda og kennara. UMFÍ

Hreyfivika UMFÍ hefst á morgun, mánudaginn 25. maí og stendur hún til sunnudagsins 31. maí næstkomandi. Í hreyfivikunni standa boðberar hreyfingar fyrir viðburðum um allt land en það geta verið einstaklingar, íþróttafélög, fyrirtæki eða sveitarfélög sem standa fyrir viðburði og hvetur boðberinn samferðafólk sitt til að hreyfa sig eins og fram kemur í tilkynningu frá UMFÍ.

Meðal þeirra sem taka þátt í átakinu eru nemendur við Dalskóla í Grafarholti og segir Ólafur Snorri Rafnsson, íþróttakennari við Dalskóla nemendur mjög spennta fyrir vikunni. Hreyfivikan í Dalskóla hefst á því að nemendur fara í Gufunesbæ í ýmsa leiki á mánudag og þriðjudag en á miðvikudag verður brenniboltakeppni milli kennara og nemenda í áttunda bekk og fótboltamót undir vikulokin.

Ólafur Snorri Rafnsson og Bjarni Jóhannsson, íþróttakennarar við Dalskóla.UMFÍ

„Nemendur okkar eru mjög spenntir fyrir Hreyfiviku UMFÍ, sérstaklega fyrir brenniboltaleiknum milli kennara og nemenda og fótboltamótinu sem verður milli árganga í vikunni,“ segir Ólafur Snorri. „Það verður líka gaman að finna skúr og kenna börnunum að fara í Yfir.“

Hreyfivikan hefur verið haldin á hverju ári síðan árið 2012 og með átakinu eru landsmenn hvattir til að flétta hreyfingu inn í daglegt líf og virkja fólk í kring um sig. „Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju,“ segir í tilkynningunni.

Hreyfivika UMFÍ hefur verið haldin árlega frá 2012.UMFÍ

Í ár verða viðburðir á yfir 40 stöðum um allt land en boðberar eru viðstöðulaust að bætast í hópinn og geta viðburðirnir því hæglega orðið mun fleiri. Viðburðina má finna hér.

Í fyrra var skorað sérstaklega á nemendur í grunnskólum landsins að taka þátt í átakinu. Fleiri skólar hafa bæst við og fengu þeir senda brennibolta til að leika sér með.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×