Innlent

Strandsvæðaskipulag nauðsynlegt fyrsta skref

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fiskeldi í sjó er umdeilt.
Fiskeldi í sjó er umdeilt. Vísir/ Einar Árnason

Formaður bæjarstjórnar Akureyrar vill að unnið verði strandsvæðaskipulag fyrir Eyjafjörð, áður en ákveðið verður hvort friða eigi fjörðinn fyrir fiskeldi í sjó.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sögðum við frá því að á bæjarstjórnin á Akureyri samþykkti á síðasta fundi sínum að leggja til við sjávarútvegsráðherra að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi í sjó.

Fulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með minnihlutanum og var tillagan því samþykkt. Fulltrúar L-listans og Framsóknarflokksins, sem eru í meirihluta ásamt Samfylkingunni, vilja hins vegar ekki slá fiskeldi í sjó út af borðinu strax. 

„Fiskeldi verður væntanlega stór og mikilvæg atvinnugrein hér á landi. Ég vil svona fyrir okkar hönd ekki segja nei, ég vil skoða málin frekar og afla okkur frekari upplýsinga og gagna,“ segir Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar á Akureyri og oddviti L-listans.

Þess í stað lögðu fulltrúar flokkanna tveggja fram tillögu um að skorað yrði á stjórnvöld að hefja vinnu við strandsvæðiskipulag fyrir allan fjörðinn, í samráði við sveitarfélögin á svæðinu.

„Það er nauðsynlegt fyrsta skref með aðkomu allra sveitarfélaganna, þannig að við séum að sjá fyrir okkur hvernig eigi að byggja upp atvinnuveginn við fjörðinn,“ segir Halla Björk.

Akureyri er fjölmennasta sveitarfélagið við Eyjafjörð en þó ekki það eina, og því segir Halla að mikilvægt sé að hafa önnur sveitarfélög með í ráðunum.

„Við erum sannarlega ekki Akureyringar að fara að setja fiskeldi við bæinn hjá okkur, þetta snýr að hinum sveitarfélögunum, og í því ljósi er mikilvægt að við séum einmitt í þéttu samtali,“ segir Halla Björk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×