Innlent

Hávært kynlíf leiddi til lögregluheimsóknar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan fær ófá símtöl þar sem kvartað er yfir hávaða.
Lögreglan fær ófá símtöl þar sem kvartað er yfir hávaða. vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti nú fyrir stuttu færslu á Facebook-síðu sinni þar sem lýst er lögregluheimsókn á heimili eitt í umdæminu. Ástæðan var hávaðakvörtun nágranna, en upptök hávaðans reyndist vera kynlíf pars nokkurs.

Í færslu lögreglunnar segir að lögreglan fái ófá símtöl þar sem kvartað er undan hávaða. Tilefnið sé misjafnt, en hátt stillt tónlist sé eitt helsta tilefni slíkra kvartana, sem og hávaðasamar framkvæmdir.

„Sama má segja um hávaðasöm rifrildi, en þá kunna eðlilega að vakna áhyggjur um að ofbeldi sé beitt. Það síðastnefnda virtist eiga við í ónefndu húsi í umdæminu nýverið og var lögreglan fljót á vettvang. Barið var valdsmannslega á útidyrahurðina hjá íbúunum þaðan sem hávaðinn barst, en sá sem tilkynnti um málið var mjög áhyggjufullur um það sem gekk á,“ segir í færslunni.

Þegar dyrnar hafi opnast hafi tekið á móti lögreglumönnunum maður á adamsklæðunum, sem virtist í þokkabót nokkuð hissa á því að fá lögregluna í heimsókn. Aðspurður hafi maðurinn ekki sagst einn.

„Á bak við hann birtist kona og kom í dyragættina. Ekki var að sjá að neitt amaði að henni og þvert á móti virtist hún vera alsæl. Aðspurð um hávaðann sögðust þau hafa verið að stunda kynlíf og játuðu að því hefði fylgt nokkur hávaði.“

Lögreglu hafi ekki þótt ástæða til að leggja frekari spurningar fyrir fólkið, sem lögreglu þótti nokkuð vandræðalegt eftir heimsóknina.

„Þau voru kvödd við svo búið og vinsamlegast beðin um að hafa lægra við iðju sína í húsinu og tóku skötuhjúin vel í tilmælin.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.