Innlent

Vigdísi komið á óvart með fallega útsettum afmælissöng

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Vigdís Finnbogadóttir steig út á svalir í morgun þegar henni var komið á óvart með afmælissöng.
Vigdís Finnbogadóttir steig út á svalir í morgun þegar henni var komið á óvart með afmælissöng. vísir/Egill

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands er níræð í dag. Í tilefni dagsins stillti kór sér upp í garði hennar við Aragötu í Reykjavík og söng fyrir hana afmælissönginn í fallegri útsetningu.

Þá flutti leikkonan Ragnheiður Steindórsdóttir ljóðið Gróðursetning eftir Guðmund Böðvarsson.

Kolbrún Halldórsdóttir var í hópi þeirra sem söng fyrir Vigdísi í morgun. „Hún átti ekki von á þessu en kom brosandi út á tröppur og tók af miklu þakklæti við þessari morgungjöf,“ segir hún. 

Í kórnum voru margir vinir Vigdísar, líkt og til dæmis Páll Valsson, sem ritaði ævisögu hennar. 

„Það var náttúrulega erfitt að geta ekki knúsast en þetta var allt gert með lögbundnu millibili,“ segir Kolbrún.

Afmæliskveðjum hefur rignt yfir Vigdísi í dag. Í einni af fjölmörgum færir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra henni þakkir fyrir að hafa breytt íslensku samfélagi til hins betra. 

Rán Flygenring, rithöfundur, gaf í fyrra út myndasögubók um Vigdísi. Hún segir mikilvægt að kynna mikilsverð störf hennar fyrir nýjum kynslóðum.

„Meginhugmyndin með þessari bók er að kynna hana fyrir krökkum núna, sem þekkja kannski nafnið en ekki endilega hver hún er og fyrir hvað hún stendur,“ segir Rán.

Sjálf segist hún hafa alist upp við að sjálfgefið væri að kona væri þjóðarleiðtogi og var það ekki fyrr en hún fór að vinna í bókinni sem hún áttaði sig í raun á því hversu merkilegt það væri.

„Og hvað hún er mikil þungavigtarkona á heimsvísu. Bæði hvað varðar kvenréttindi og svo hennar starf í þágu náttúrunnar. Það hversu snemma hún var talsmaður þess og svo bara þessi menningarbjarmi í kringum hana,“ segir Rán.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×