Fréttir

Hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir kynferðislega áreitni í rútu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Það var talið dæmda til refsiþyngingar að áreitnin hefði valdið brotaþola andlegum erfiðleikum.
Það var talið dæmda til refsiþyngingar að áreitnin hefði valdið brotaþola andlegum erfiðleikum. Vísir/Vilhelm

Karlmaður var í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni. Fólst áreitnin í því að hann strauk brjóst skólasystur sinnar, greip um þau, strauk innanvert læri hennar og lagði hönd á klof hennar.

Brotið átti sér stað í rútu sem ók frá Skeifunni og niður í miðborg Reykjavíkur, aðfaranótt 25. nóvember 2017, en dæmdi og brotaþoli voru bæði háskólastúdentar á þeim tíma.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en auk þess að sæta skilorðsbundnum tveggja mánaða fangelsisdómi, var manninum gert að greiða brotaþola 400 þúsund krónur í miskabætur, að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum. Dæmda var einnig gert að greiða allan sakarkostnað málsins.

Í dómi héraðsdóms segir að dæmdi hafi skýlaust játað fyrir dómi alla þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Eins var litið til þess að maðurinn hefði ekki áður gerst sekur við refsilög og að hann hefði fengið áminningu innan háskóla síns vegna málsins.

„Þá verður ráðið af málsgögnum og framkomu ákærða fyrir dómi að hann iðrist mjög gjörða sinna og verður tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar,“ segir einnig í dóminum.

Þó var það talið dæmda til refsiþyngingar að brotaþoli hefði tekið áreitnina afar nærri sér, og hún valdið henni andlegum erfiðleikum, eftir því sem ráðið varð af greinargerðum sálfræðinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×