Innlent

Hundrað Íslendingum bjargað í samkomubanni: „Er þetta ekki komið gott?“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víðir Reynisson yfirlögreguþjónn var augljóslega ósáttur við þann fjölda sem björgunarsveitir þurftu að koma til aðstoðar um helgina.
Víðir Reynisson yfirlögreguþjónn var augljóslega ósáttur við þann fjölda sem björgunarsveitir þurftu að koma til aðstoðar um helgina. Lögreglan

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn minnti enn og aftur á tilmæli almannavarna þess efnis að fólk haldi sig heima um páskana. Hann minnti á þetta á daglegum upplýsingafundi í dag, þeim 37. í röðinni. Víðir hefur stýrt öllum fundunum.

Víðir hefur opnað og lokað fundunum, allajafna með lokaorðum til landsmanna.

„Var ekki helgin ágætis æfing? Við vorum að tala um að vera heima um helgina og að vera heima um páskana,“ sagði Víðir á fundinum í dag og var greinilega ekki skemmt.

„Það voru opnaðar fjöldahjálpastöðvar fyrir Íslendinga sem að festust uppi á heiðum og þurfti að bjarga. Björgunarsveitir björguðu nánast hundrað Íslendingum úr vandræðum um helgina. Er þetta ekki bara komið gott?“ spurði Víðir ákveðinn.

Víðir var spurður að því á fundinum hvort stórfjölskyldur mættu hittast um páskana og borða saman. Víðir hvatti fólk til að hugsa um þá meðlimi fjölskyldunnar sem komnir eru á aldur, og að hafa hópa sem hittist sem fámennasta.

„Eigum við ekki að slaka á núna um helgina og vera heima? Taka páskana í rólegheitum í fjarfundi með stórfjölskyldunni, matarboð með vinunum í gegnum fjarfundi? Njótum návistar við okkar nánustu, verum áfram góð hvert annað og höldum áfram að vera ábyrg. Þá tekst okkur að komast í gegnum þetta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×