Innlent

Hvessir eftir há­degi og kólnar

Atli Ísleifsson skrifar
Spákort Veðurstofunnar eins og það leit út núna í morgun.
Spákort Veðurstofunnar eins og það leit út núna í morgun. Veðurstofan

Hríðarveðrið er smám saman að ganga niður norðvestanlands nú í morgunsárið. Víða verða austan 8 til 15 metrar á sekúndu fyrri part dags, rigning með köflum og hiti 2 til 8 stig.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Segir að það hvessi eftir hádegi, en þá gangi í suðvestan 13 til 20 metrar á sekúndu með skúrum og síðar éljum og kólnandi veðri.

„Dregur úr vindi í nótt og í fyrramálið og styttir upp austanlands. Snýst í norðan strekking annað kvöld með dálítilli snjókomu norðantil, en hægari vindur og léttir til um landið suðvestanvert.

Svo er útlit fyrir hæglætis veður og bjartviðri víða um land á miðvikudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s. Víða líkur á éljum, en bjartviðri austanlands. Hiti um og undir frostmarki. Snýst norðlæga átt 8-15 um kvöldið með snjókomu norðantil á landinu, en hægari og léttir til syðra.

Á miðvikudag: Norðlæg átt 3-8 og léttskýjað, en 8-13 og dálítil él norðaustantil á landinu framan af degi. Frost 1 til 6 stig, en frostlaust við suðurströndina yfir daginn.

Á fimmtudag (skírdagur): Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt með þurru og björtu veðri og vægu frosti, en 8-13 og lítilsháttar skúrir með suðurströndinni, og hiti að 5 stigum þar.

Á föstudag (föstudagurinn langi): Suðaustanátt og rigning eða slydda með köflum, hiti 1 til 5 stig. Bjartviðri og hiti um frostmark fyrir norðan.

Á laugardag: Suðaustan- og austanátt og víða dálítil rigning eða slydda, úrkomumest suðaustanlands. Áfram þurrt fyrir norðan. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.

Á sunnudag (páskadagur): Suðvestlæg átt og skýjað, en bjartviðri norðaustantil. Áfram milt í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×