Innlent

„Ísland best í heimi“ ekki viðeigandi núna

Kjartan Kjartansson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna föstudaginn 3. apríl 2020.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna föstudaginn 3. apríl 2020. Lögreglan

Sóttvarnayfirvöld á Íslandi hafa varað erlenda fjölmiðla við því að bera aðgerðir á Íslandi saman við annarra ríkja. Fjölmargar fyrirspurnir berast nú frá erlendum miðlum vegna aðgerða íslenskra yfirvalda. Víði Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir „Ísland best í heimi“ ekki viðeigandi á þessum tímum.

Fjallað hefur verið um hvernig íslensk yfirvöld hafa brugðist við kórónuveiruheimsfaraldurinum og þeim lýst sem árangursríkum í erlendum fjölmiðlum eins og CNN og Washington Post undanfarna daga.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði að fjölmargar fyrirspurnir bærust nú frá erlendum miðlum sem séu áhugasamir um það sem er gert á Ísland á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann viti ekki hvort áhuginn sé bundinn við Ísland eða hvort fjölmiðlarnir leiti hófanna í öllum löndum en hér reyni yfirvöld að svara þeim spurningum sem berast eftir bestu getu.

Í sama streng tók Víðir yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Erlendir fjölmiðlar reyni mikið að fá sérfræðinga hér til að bera aðgerðirnar saman við það sem hefur verið gert í öðrum löndum og leggja mat á hvort þær séu betri hér en annars staðar.

„Við höfum reynt að fá fólk til að horfa á Ísland í samhengi. Það er margt miklu einfaldara fyrir okkur. Við erum færri. Við erum land þar sem upplýsingastreymi er gott, við náum til fólks og það eru allir með okkur í þessu. Þannig að við vörum við því að menn séu að reyna að bera Ísland eitthvað endilega saman við aðra,“ sagði Víðir.

„Eitthvað Ísland best í heimi-syndróm sem við fáum stundum til okkar er bara ekki viðeigandi núna, alls ekki,“ sagði hann.

Klippa: Ísland best í heimi ekki viðeigandi


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×