Enski boltinn

Jack Wilshere gæti verið frá fram í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere á sjúkrbeddanum í gær.
Jack Wilshere á sjúkrbeddanum í gær. Mynd/Twittersíða Jack Wilshere
Jack Wilshere fór í aðgerð á ökkla í gær og samkvæmt nýjustu fréttum frá Emirates þá gæti enski landsliðsmiðjumaðurinn verið frá fram í febrúar. Wilshere hafði vonast til að koma aftur til baka um jólin en Arsenal býst við að endurhæfingin taki fjóra til fimm mánuði.

Wilshere ætti því í fyrsta lagi að snúa til baka í lok janúar en þessi ungi leikmaður sem sló í gegn á síðasta tímabili hefur fengið eintómar slæmar fréttir í allt haust. Hann mun nú missa af allri riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem og restinni af undankeppni EM með enska landsliðinu.

Wilshere meiddist fyrst á ökklanum í landsleik á móti Sviss í júní en meiðslin tóku sig síðan aftur upp í leik á móti New York Red Bulls á undirbúningstímabilinu. Wilshere hefur því misst af öllum leikjum Arsenal á tímabilinu.

Jack Wilshere lék 49 leiki með Arsenal á síðustu leiktíð þar af 2656 mínútur í 35 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×