Lífið

Kjaftasögur og fordómar eftir skíðaferð til Ítalíu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sara fékk Covid-19 og Eva Dögg var með henni ásamt eiginmanni og tveimur sonum í sóttkví.
Sara fékk Covid-19 og Eva Dögg var með henni ásamt eiginmanni og tveimur sonum í sóttkví.

Athafnakonan Eva Dögg Sigurgeirsdóttir var ein af þeim fyrstu sem fór í sóttkví hér á landi en hún og fjölskylda hennar voru á skíðum í ítölskum ölpunum í febrúar.

„Við förum í sóttkví 29. febrúar og það var þarna þegar þessi fyrstu voru að fara í sóttkví. Við reyndum að hafa þetta svolítið kósý. Við erum með tvo litla gæja á heimilinu og vorum alls fimm saman sem ég er svolítið þakklát fyrir,“ sagði Eva í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Við reyndum að hafa skólastund hér á morgnana og reyndum að kenna strákunum sem gekk ekki alltaf vel,“ segir Eva og hlær og bætir við. 

„Eftir þetta dáist ég að kennarastéttinni sem eru algjörar hetjur.“

Urðu fyrir fórdómum

Hún segir að þau hafi verið dugleg að elda góðan mat og fara í pottinn svo upplifunin var í raun eins og að vera úti í sumarbústað. Sara Ísabella Guðmundsdóttir, dóttir Evu, fékk síðan að lokum Covid-19 sjúkdóminn, sú eina í fjölskyldunni.

„Það var mjög erfitt að vera búin að vera alltaf með fjölskyldunni og síðan allt í einu innilokuð inni í herbergi í einangrun. Ég var eiginlega ekki með neinn hita og mældist mest 37,7 og var bara með hausverk og smá lungnaóþægindi og varla hóstandi.“

Sara segist finna fyrir einhverjum fordómum eftir að hún fór að vera úti á meðal almennings.

„Fólk er kannski ekki alveg að treysta því að hitta mig strax, þó það sé búið að útskrifa mig. Fólk er ennþá pínu hrætt við mig ef ég get sagt það,“ segir Sara.

Kjaftasögur eins og í gamla daga

„Þegar maðurinn minn var loksins laus fór hann á N-1 að taka bensín og þá kemur kona inn á stöðina, sér hann, og snýr strax við og fer út. Hann var búinn að koma fram í fjölmiðlum að hann væri í sóttkví,“ segir Eva en eiginmaður hennar er Bjarni Ákason framkvæmdarstjóri.

„Fólk fattar ekki muninn á því að vera í sóttkví og einangrun. Það var mikið talað um þetta fyrst en í dag er þetta út um allt, því miður.“

Íslendingarnir sem komu frá Ítalíu í byrjun faraldsins fengu yfir sig ljótar athugasemdir á netinu.

„Þetta var pínu eins og í gamla daga þegar það komu fram kjaftasögur. Fólk var að hringja og forvitnast um stöðuna, allir vissu allt miklu betur og var með einhverjar staðhæfingar sem voru í raun algjör bull. Það var svolítið athyglisvert hvað stór hluti þjóðarinnar var orðin veirusérfræðingar. Þetta er að breytast núna en þetta pirraði mig samt og ég átti alveg erfitt með ákveðið fólk. Á svona tímum kemur í ljós hverjir eru í alvöru vinir þínir,“ segir Eva.

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×