Innlent

Tekist á um fjárlög í tómum þingsal

Heimir Már Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Vísir/GVA/GVA
Dagskrá Alþingis hefur riðlast vegna langra umræðna um fjárlög en stjórnarandstaðan gagnrýnir að betri staða ríkisfjármála en reiknað var með sé ekki nýtt betur til að koma til móts við almenning í landinu. Fjárlagaumræðan er þó fyrr á ferðinni en í fyrra og ekki mörg stórmál sem ríkisstjórnin þarf að afgreiða fyrir jól.

Það er ekki fjörinu fyrir að fara í annarri umræðu fjárlaga sem nú stendur yfir á Alþingi. Þingmenn stjórnarandstöðunnar tala meira og minna fyrir tómum sal í þeirri von að ná fram einhverjum breytingum á fjárlögunum. Stjórnarandstaðan kynnti viðamiklar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið á miðvikudag og stjórnarmeirihlutinn hefur einnig lagt fram margar breytingartillögur við frumvarpið.

Er einhver von til þess að þið fáið eitthvað af þessum tillögum samþykktar?

„Það verður auðvitað að koma í ljós. En það hefur komið fram hjá formanni fjárlaganefndar að það sé vilji til að skoða þessar tillögur. Ég hef fylgst mjög vel með umræðunni hér við fjárlögin og ég hef t.a.m. heyrt það frá þingmönnum Framsóknarflokksins að nokkrir þeirra hafi viðrað þá skoðun að það sé rétt að fylgja þeirri tillögu sem við gerum, þ.e.a.s. að fara ekki í þá aðgerð að lækka útvarpsgjaldið heldur leyfa því að halda sér og renna óskert til Ríkisútvarpsins,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Þá segist Katrín leggja mikla áherslu á að fallið verði frá um 1.900 milljóna gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og að hún skynji skilning á því. Fjárlagaumræðan er þrátt fyrir allt um hálfum mánuði fyrr á ferðinni en á síðasta ári og ríkisstjórnin hefur ekki mörg önnur erfið mál sem hún pressar á fyrir jól.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir þingmenn vera að vinna að framgangi mála þótt þeir sitji ekki í þingsal og þeir fylgist með umræðunni með öðrum hætti.

„Við erum hér í annarri umræðu og þá kemur minnihlutinn með sínar tillögur. Það verður jú að skoða það sem þau eru að leggja fram. En kostnaðarhliðin sem kemur fram í þeirra tillögum hlýtur þá að þýða að við verðum að draga úr einhverju öðru í fjárlagafrumvarpinu sjálfu eins og það liggur fyrir. Vegna þess að það eru ekki til meiri peningar. Menn verða að hugsa pínulítið um það líka,“ segir Ragnheiður.

Katrín bendir hins vegar á að það kosti ríkissjóð ekkert að hætta við lækkun útvarpsgjaldsins.

Það er líklegt að umræður standi fram á kvöld og teygist fram á mánudag og þá eru fjáröflunarfrumvörpin öll eftir sem gæti tekið nokkra daga að ræða um. Þingstörfum fyrir jól á að ljúka föstudaginn 12 desember samkvæmt starfsáætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×