Innlent

Undirbúa málsókn gegn Norðmönnum

Íslensk stjórnvöld ákváðu í dag að hefja undirbúning að málssókn gegn Norðmönnum fyrir Alþjóðadómstólnum vegna Svalbarðamálsins. Utanríkisráðherrar landanna munu ræða deiluna á fundi í næstu viku. Íslensku skipin fimm sem voru að síldveiðum við Svalbarða héldu út af hinu umdeilda svæði í gærkvöldi. Við blasti að norska strandgæslan myndi færa þau skip til hafnar sem héldu áfram veiðum á svæðinu í trássi við reglur norskra stjórnvalda um kvóta á svæðinu, sem tóku gildi á miðnætti. Embættismenn utanríkis- forsætis- og sjavarútvegsráðuneytis funduðu um málið í utanríkisráðuneytinu í morgun en Íslendingar viðurkenna ekki rétt Norðmanna til að úthluta kvóta á svæðinu. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, segir að haldinn verði fundur í næstu viku í tengslum við fund utanríkisráðherra Norðurlandanna í Litháen. Segir hann að gerð verði tillaga um að hafinn verði undirbúningur að málsókn vegna Svalbarðamálsins. Það hafi verið dregið mjög lengi þar sem íslensk stjórnvöld hafi viljað fara samningsleiðina. Halldór segist svartsýnn á að það muni takast en segir stjórnvöld samt leggja áherslu á það við Norðmenn að málið verði leyst við samningaborðið. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir það eina rétta í stöðunni að láta reyna á málið fyrir alþjóðlegum dómstólum. Það hafi ekki tekist að semja við Norðmenn og þetta því það eina leiðin. Um leið og boðað er til fundar með norska utanríkisráðherranum er Norðmönnum hótað lögsókn fyrir alþjóða dómstólum. Ljóst er þó að slík málaferli muni taka langan tíma. Telur Halldór Ásgrímsson að undirbúningurinn undir málið taki vikur eða mánuði og að það verði kostnaðarsamt fyrir báðar þjóðir. Það sé því hagur allra að leysa málið við samningaborðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×